<$BlogRSDURL$>
[ Gestabók ]
bók fyrir gesti

Friday, April 17, 2009

BNA

Ég hef einu sinni komið til Bandaríkja Norður Ameríku og þá bara stuttlega á leið minni til Kanada. Í Kanada eyddi ég nokkrum dögum í túristabæ dauðans, landamæraþorpinu Niagara Falls, kennt við samnefnda fossasprænu. Hef ég ítrekað lýst vonbrigðum og hneykslan með þá fossa. Gullfoss er miklu flottari. Ég var þar í vinnuferð, á ráðstefnu hjá Department of Early Childhood hjá The Council for Exceptional Children.

Í BNA og á landamærum BNA og Kanada var gríðarleg öryggisgæsla. Ég man þegar landamæravörður, sem undir öðrum kringumstæðum hefði talist hugguleg ung stúlka, hrifsaði af mér vegabréfið og skipaði mér reiðilega að gera grein fyrir ferðum mínum, fyrir framan fulla rútu af fólki sem var einnig á leið yfir landamærin. Ég sagði henni að ég væri á leið á ráðstefnu um "early childhood interventions and early childhood special education". Hún skildi augljóslega ekkert hvað ég var að fara. Sem betur fer var annar maður í rútunni sem var innfæddur og var líka á leið á sömu ráðstefnu og hann skaut sér að og sagði, ....ummm....it´s for people who work with disabled children. Sæta landamæravarðagellan sagði ekkert en virtist allavega skilja þetta svar betur. Hún rétti mér vegabréfið aftur með reiðisvip.
Ég held að hún hafi hatað mig.

Á leiðinni heim af ráðstefnu tók ég rútu til Buffaloborgar og flaug svo frá Buffalo til Boston. Þegar flugvélin lenti á Logan flugvelli í Boston kom rödd í hátalarakerfið sem sagði: Passenger Smarason, please report to Airport Security.
Ég hugsaði, ætli þau séu að tala um mig?? Eins og flugvélin væri full of fólki sem bæri eftirnafið Samerrrresshon. Ég staulaðist út og sá flugvallarstarfsmann sem hélt á skilti sem á stóð "Mr. Smarason" og nokkra öryggisverði með honum. Ég brosti til þeirra og veifaði. Þau brostu ekki til baka. You need to come with us, sir. Ósjálfrátt fór ég að hugsa um latexhanska.

Ég var tekinn afsíðis og spurður um þjóðerni, erindi mitt þarna, aldur og fyrri störf. Ég þurfti að sýna þeim ráðstefnugögn til að sanna mál mitt og flugmiðabúta af fyrri flugferðum. Í fyrstu voru þau frekar þurr á manninn. Voru með talstöð sem þau muldruðu eitthvað í annað slagið og tölvu sem þau pikkuðu á horfðu svo á skjáinn, svo á mig, svo aftur á skjáinn. Mér leið eins og ég væri að leika í "24" og fór að hugsa hvað myndi Jack Bauer gera? Ákvað svo að fara ekki of langt með þá hugsun.

Málið virtist vera það að á flugvellinum í Buffalo var tvöfalt miðakerfi. Maður þurfti einn miða til að komast inn á ákveðið svæði á flugvellinum og annan miða til að komast inn í flugvélina sjálfa. Þegar vélin var komin í loftið kom í ljós að seinni miðinn sem var rifinn af mér var alls ekki flugmiði heldur einhver kvittun sem var í flugmiðabúntinu. Flugmiðann var ég ekki með og ekki heldur fluvöllurinn í Buffalo. Hann fannst hvergi.
Ég hafði því komist um borð í flugvél í BNA, þrátt fyrir alla heimsins öryggisgæslu, án þess að hafa flugmiða. Al-Qeada ætti að bjóða mér vinnu. Þetta uppgötvaðist þegar flugvélin var í loftinu og einhverjir menn urðu heldur stressaðir. Ég er svolítið stoltur af því að hafa gert menn, sem í daglegu starfi ganga örugglega um með byssu og talstöðvar, drullustressaða. Þó það væri óvart.

Fljótt varð öryggisvörðunum það ljóst ég var meinleysisgrey og engin terroristi, þannig séð. Eftir smá japl og jaml var mér sagt að ég mætti örugglega bara fara. Þeim var farið að leiðast. Ég var bara vitleysingur sem vissi klárlega ekkert hvað hefði gerst. Þetta væru augljóslega bara einhver mistök. Þeir voru bara kammó undir lokinn. Spjölluðu um daginn og veginn og biðu eftir því að einhver sagði þeim í talstöðinni að þetta væri allt ókey. Sem það var.

Ég hef oft séð í bíomyndum að það eru svona óeinkennisklæddar flugvélalöggur til í BNA. Svokallaðir Air Marshalls. Kannski var einu sinni Air Marshall að velti því fyrir sér hvort hann ætti að skjóta mig? Gaman að því.

Monday, April 06, 2009

Ýmislegt

Jæja, ég telst nú til ömurlegustu bloggara í heimi er mér sagt. Flestir virðast sammála um að bloggið mitt hafi hrörnað verulega bæði í magni og gæðum í seinni tíð. Það er erfitt að mótmæla því. En það þýðir lítið að væla. Það er betra að blogga bara eina væna slummu.

Ég hef fengið að upplifa smá prufu af því hvernig það væri að vera einstæður faðir síðustu vikur. Tengdafaðir minn veiktist alvarlega og þurfti að fara á sjúkrahús í Rvk (honum heilsast ágætlega núna og er á góðri bataleið). Konan mín fór suður í kjölfarið til að vera hjá honum og fjölskyldu sinni þar. Í tvær vikur á meðan vorum við fegðar einir í kotinu. Ég lærði tvennt af því. Í fyrsta lagi: þetta er hægt. Við feðgar spjöruðum okkur sæmilega en það skal tekið fram að mjög oft var leitað á náðir foreldra minna, sérstaklega þegar kom að því að fá almennilegan kvöldmat. Í öðru lagi: þetta er ógeðslega erfitt. Ég ber enn meiri virðingu fyrir einstæðum foreldrum en áður.

Í síðasta bloggi minntist ég á líkamsræktarátak, þolgræju og styrktaræfingar annan hvern dag. Eins og stundum gerist með okkur sem höfum tilhneigingu til að sökkva okkur á bólakaf í hvað svosem það er sem við ákveðum að sökkva okkur í bólakaf í, hef ég sökkt mér á bólakaf í líkamsrækt. Þetta hlýtur eiginlega að koma öllum á óvart sem þekkja mig. Ég hef núna í rúman mánuð lagt stund á prógramm sem heitir P90X (sjá p90x.com) og er lýst sem extreme home fitness program. Þetta er 90 daga prógramm sem á að fara með mann frá regular to ripped á þeim tíma. Ég hef fjárfest í lóðum og teygjum. Ég hef æft af krafti daglega í fimm vikur samfleitt. Ég geri mér engar vonir um að verða ripped, en ég geri mér vonir um að vera sterkari, liðugri, úthaldsbetri og grennri. Þær vonir hafa reyndar allar ræst núþegar.

Í upphafi prógrammsins tekur maður próf til að hafa samanburð til að bera við í lokinn og til að athuga hvort maður hafi eitthvert erindi í svona prógramm á annað borð. Þetta prógram er extreme og ekki fyrir hvern sem er (yeah!). Ég var alveg á mörkunum að ná lágmarkinu til að mega fara í þetta. Til að mynda er gerð sú krafa að maður geti gert 15 armbeygjur. Ég rétt gat 17, prumpandi og emjandi.

Prógrammið byggir á mjög fjölbreyttum æfingum. Einu sinni í viku er Kenpo sem er karate æfing. Einu sinni í viku er Yoga í einn og hálfan fokking tíma í senn. Einu sinni í viku er Plyometrics sem eru hoppuæfingar. Maður er semsagt hoppandi í um það bil klukkutíma, sem þýðir gríðarlegur sviti og harðsperrur í lærum, kálfum og rassi í lágmark þrjá daga á eftir. Þessu til viðbótar eru styrktaræfingar þrisvar í viku sem skipt er niður á hendur, axlir, brjóst, bak og fætur í mismunandi samsetningum. Í kjölfar allra styrktaræfinga er 15 mínútna magaæfingaprógramm þar sem 13 mismunandi magaæfingar eru endurteknar samtals 349 sinnum. Skemmst frá því að segja að þetta er allt saman ógeðslega erfitt. Einnig skemmst frá því að segja að þetta svínvirkar.

Ég keypti mér buxur í lok janúar sem ég passa ekki lengur í. Ég er búinn að missa 12 kíló. Ég get gert ansi margar armbeygjur og ég get snert tærnar á mér án þess að beygja hnéin. Jafn skelfilega samkynhneigt og það kann að hljóma þá er ég farinn að hafa gaman af Yoga! Fokking Yoga! Og þetta er nota bene á 5 vikum. Ég á enn 7 vikur eftir af þessu. Shit, hvað ég er æðislegur.

Ég er farinn að spila á trommur svolítið aftur. Ég er að fara að spila rokk með hljómsveitinni ARRRRG! á miðvikudagskvöldið næsta í Egilsbúð. Þar er ykkur hollast að mæta og slamma í takt.

Svo mun uppáhalds hljómsveitin mín í öllum heiminum, Rufuz, koma saman á skírdag og hefja æfingar fyrir væntanlega breiðskífu. Ég hlakka svo mikið til að ég gæti gubbað. Það verður algjör snilld. Hlynur er búinn að semja böns af lögum og við Robbi erum með tvö lög í pokahorninu. Svo eru gamlir smellir sem bíða þess líka að komast á plast. Við munum kíkja á þetta allt saman um páskahelgina og sjóða saman í tímamótaverk. Þetta verður ekkert minna en stórkostlegt.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?