<$BlogRSDURL$>
[ Gestabók ]
bók fyrir gesti

Friday, December 28, 2007

RUFUZ TÓNLEIKAR

Sumar hljómsveitir eru uppáhaldshljómsveitir meðlima þeirra. Rufuz er þannig hljómsveit. Enginn í Rufuz heldur meira upp á nokkra aðra hljómsveit en Rufuz. Við fílum lögin, við fílum attitjúdið, við fílum djókið og við fílum félgagsskapinn. Við eigum svo margar svo góðar minningar. Rufuz er uppáhaldshljómsveitin mín. Það er bara alltaf svo gaman hjá okkur.

Rufuz hefur verið til í 8 ár. Gefið út eina alvöru plötu sem var frekar slök og fullt af heimtilbúnum demo diskum sem flestir eru, að mínu mati, algjör snilld. Haldið slatta af tónleikum og brotið mikið af gíturum.

Á morgun verða Rufuz tónleikar í Egilsbúð. Eins og oft áður gleymdist að auglýsa þá af nokkru viti. Þannig að látið orðið endilega berast.

Semsagt, Rufuz í Egilsbúð á morgun, 29.des, kl 21:00. 500 kallinn. Sjáumst í rokkfíling!

Monday, December 24, 2007

Gleðileg jól

Við feðgar vöknuðum klukkan 6 í morgunn af því að Einar Smári ákvað að þá væri kominn tími til að vakna. Hann var steinhissa að sjá jólatréð sem beið hans í stofunni. En rosa spenntur. Er búinn að eyða miklum tíma í að skoða tréið og pota í jólakúlarnar sem hanga í því. Yfir sig hrifinn.

Í gær átum við pizzu með mömmu og pabba. Einar Smári var dauðþreyttur og ekki í neinu stuði fyrir pizzupartí. Og hann lét alla vita.

Guðný er búinn að vera á næturvöktum en núna er hún kominn í langþráð frí, þó hún sofi auðvitað fram eftir degi.

Það er aðfangadagur. Við feðgar ætlum að fá okkur vínber og malt og appelsín. Það eru að koma jól!





Thursday, December 20, 2007

Þetta er fyrir hundinn minn sko, ekki fyrir mig....

Hver kannast ekki við það þegar hundurinn litar feldinn á sér svartan og tekur upp á því að hlusta á The Smiths endalaust?

Nú er ekki lengur ástæða til að örvænta því Eli Lilly, vinalegu meðalasalarnir, hafa fengið leyfi frá FDA fyrir prozaci fyrir hunda. Jebb. Prozac fyrir hunda.

Sjá hér: http://www.technologyreview.com/read_article.aspx?id=18463

Heimur batnandi fer.

Wednesday, December 12, 2007

Drómasýki

Eitthvað við þetta desemberska skammdegi sem gerir það að verkum að ég sef mikið. Sofnaði upp í sófa í gær á meðan ég horfði á bíómynd. Guðný sagði mér að þessi mynd væri sálfræðitryllir. Ég sagði henni að ég væri sálfræðitryllir. Henni fannst ég ekkert fyndinn. Svo sofnaði ég.

Það er örugglega mjög gaman að búa með mér.

Daníel Geir og Jólabandið hafa komið gleðijólarokkslagaranum Gjöfin mín ert þú, í 10 laga úrslit jólalagakeppni Popplands á Rás 2. Hér má kjósa: http://www.ruv.is/heim/vefir/poppland/jolalagakeppni/. Allir að kjósa okkur. Öll hin lögin eru eitthvað væl um jesú og svoleiðis. Nennir því enginn.

Það átti að taka upp myndband síðasta föstudagskvöld en ég mætti ekki. Ég er óáreiðanlegur. Myndbandið var auðvitað samt tekið upp og hlakka ég til að sjá það. Fylgist með á DGH Moritz síðunni.

Um hvað væri sniðugt að skrifa bók? Hefur einhver hugmynd?

Friday, December 07, 2007

Sálfræðingahúmor og fleira...

Við spiluðum á skosku Ceilidh dansiballi í gær og var fullt út úr dyrum í Flugröst. Fólk hoppaði og skoppaði þannig að svitinn frussaðist út um allar trissur. Skemmtilegra og betur heppnað en ég þorði að vona. Kæmi mér ekki á óvart að Ceilidh yrði hinn nýji magadans. Semsagt atriði á öllum árshátíðum og skemmtunum auk þess að verða hin nýja hádegislíkamsrækt opinberra starfsmanna.

Stundum spring ég úr hlátri upp úr þurru, af því að ég hugsa eitthvað svo fyndið. Slík augnablik gefa, jú, lífinu gildi og geta verulega bætt andrúmsloftið á þrúgandi fundum þar sem þung mál eru rædd. Eða skemmt það alveg, whatever.

Lenti í þessu í gær. Var þá hugsað til atviks þar sem ég var staddur í stóru herbergi troðfullu af sálfræðingum. Allir viðstaddir voru sálfræðingar. Eitthvað voru menn að skiptast á skoðunum þó ég muni ekki um hvað var rætt. Allavega, einn sálfræðingurinn sagði eitthvað en kom því ekki alveg nógu skýrt frá sér. Annar sálfræðingur umorðaði þá það sem sá fyrri hafði sagt þannig að það var alveg skýrt hvað hann átti við. Sagði semsagt það sama en á mun skiljanlegri hátt. Þá sagði sá fyrri: Takk fyrir að skilja mig betur en ég skildi mig sjálfur.

Sá seinni sagði: Tja, maður vinnur nú við þetta.

Allur salurinn trylltist af hlátri og ég brest ennþá reglulega í hláturskast yfir þessu. Þegar ég segi öðrum þetta sem brandara hlæja fáir. Hvað er að fólki?

Thursday, December 06, 2007

Jólafílingur hinn fyrri

Ég finn það að ég er að nálgast einhverskonar jólaskap. Sem er fínt, svosem, nema hvað að ég veit að það endist ekki fram að jólum. Ég þekki nefnilega ágætlega hvernig þessi jólafílingur svífur á mig á aðventunni. Hann kemur í tveimur hollum og á milli þeirra er lægð.

Um þetta leyti, 1.-2. viku í desember, vex mér ásmeginn í jólastemmara. Jólaljós, jólalög, piparkökur, kertaljós og allt eitthvað svo kósý í skammdeginu. Jólaglögg, jájá.

Síðan þegar 10-12 dagar eru til jóla rennur af mér. Jólafílingurinn snarminnkar. Maður aðlagast jólalegu umhverfi og falleg ljós, smákökur og kerti hætta að hafa jafn mögnuð hughrifsáhrif og nokkrum dögum áður. Maður spyr sig hvort maður sé bitur fýlupúki að vera ekki í jólaskapi. Það er lægð.

Svo hefst kapp við tímann. Að ná aftur upp jólaskapinu fyrir hátíðarnar. Yfirleitt er það alveg á nippinu en viss Þorláksmessuhefð gerir oftast trikkið fyrir mig. Sú hefð er afar hversdagsleg og helgast af því að mamma mín var í mörg ár verslunarkona sem nennti ekki að sjá um mat fyrir okkur vesalingana meðfram þeirri gríðarlegu vinnutörn sem þessi tími er hjá verslunarfólki. Hefðin er að panta pizzu. Hvað er jólalegra?

Ég semsagt tek þessum jólafiðringi núna með fyrirvara. Veit að hann á eftir að minnka, jafnvel hverfa, áður en hann eykst aftur.

Það peppar að vísu þessi jól upp að lítill herramaður er á heimilinu sem er núna töluvert betur í stakk búinn til að gera sér grein fyrir öllum herlegheitunum en hann var síðast, þá nýfæddur og ruglaður. Einar Smári er spenntur fyrir ljósum. Hann bendir í sífellu á jólaseríur og ljósrofa og segir: Ssssssss! Það þýðir, augljóslega: ljós. Stundum þýðir það líka að hann vilji að ljósin séu kveikt eða slökkt. Sé það gert rekur hann upp fagnaðaróp og er vís til að klappa fyrir viðkomandi ljósameistara. Hann klappar fyrir flestu sem vel er gert.

Fór í leikhús í gær. Sá Belgíska Kongó í Borgarleikhúsinu og hló, allnokkuð.

Í kvöld verður skoskt Ceilidh dansiball haldið í Flugröst. Ég mun berja rafmagnsbumbur þar. Um að gera að skella sér og hoppa um, á skoskan máta. Sjá meira hér: www.skoskurdans.org

This page is powered by Blogger. Isn't yours?