<$BlogRSDURL$>
[ Gestabók ]
bók fyrir gesti

Monday, May 21, 2007

Jæhæa...

Sýklar og vírusar þessa heims tóku alla síðustu viku í það að reyna, með heilsteyptu og sameiginlegu átaki, að útrýma mér í eitt skipti fyrir öll. Eftir að ég hafði risið upp, ekki ósvipað Lazarusi í Bíflíunni, eftir hin alvarlegu veikindi sem ég lýsti í síðustu bloggfærslu (sem nær örugglega var afbrigði fuglaflensunar eða spænsku veikinnar) dreif ég mig í vinnuna á föstudaginn. Hress og fullur eldmóðs.

Daginn eftir fann ég strax að ekki var allt með felldu í maganum mínum. Brátt hófust uppköst af áður óþekktri stærðargráðu. Og einnig frussaðist reglubundið eitthvað út um hinn endann sem hingað til er óskilgreint af vísindunum. Þetta gekk á allan laugardaginn.

Á sunnudaginn vann ég svo fullnaðarsigur gegn innrásarher örveranna og fékk mér nammi og ís til að fagna sigrinum. Í dag er ég eins og túsleginn nýskildingur. Geisla af andlegu og líkamlegu heilbrigði.

Eða svona.

Tuesday, May 15, 2007

Aumingja, aumingja ég

N
ú er ég lasinn. Nýkominn á skrið aftur í vinnunni þegar ég legst í bælið með skítapest. Ég veiktist á kosningardaginn sjálfan. Hef örugglega ekki höndlað spennuna betur en þetta.

Er með hita, hósta, hnerra, hausverk og hor. H5. Vantar bara N1 og þá er ég með fuglaflensu. Ætli N sé ekki bara niðurgangur? Ég slepp þá í bili.

Ég á samt mikið bágt. Þegar maður er lasinn vill maður allavega geta sofið. En það tekst ekki einu sin vel núna. Drullist til að vorkenna mér.

Svo er ég með það sem konan mín kallar Hor á heilanum. Hún er hjúkka og veit að þetta er alvarlegur og alvöru sjúkdómur. Hor á heilanum lýsir sér einfaldlega í alvarlegum en oftast tímabundnum greindarskorti. Ég er basically bara vitlaus núna.

Ég er til dæmis búin að vera 4 tíma að skrifa þetta blogg.
Tuesday, May 08, 2007

Andlegur hafís

Ég skrifaði ótrúlega gott blogg í gær, það besta í langan tíma, en það hefur greinilega ekki komist inn. Það eru vonbrigði og talsverður missir fyrir hinn siðmenntaða heim.

Um helgina áskotnaðist okkur fjölskyldunni heil hrúga af græjum. Stærra og flottara sjónvarp, DVD spilari, geislaspilari, magnari og hátalarar. Þetta gáfu tengdaforeldrar mínir okkur, eða lánuðu ótímabundið. Það besta er að það er hægt að tengja þetta allt saman og þar af leiðir erum við kominn með það sem við köllum heimabíó, þó sennilega yrði hlegið að okkur í raftækjaverslunum fyrir að kalla þetta það. En við erum allavega svo glöð að síðustu kvöld höfum við setið glottandi eins og vanvitar og horft á Boston legal í svaka sándi. Lítið gleður einfaldan en hamingjan er jafnframt nægjusemi.

Þess má geta að ég tengdi allar þessar græjur saman. Ekkert að monta mig. Bara að segja.

Ég tók próf á netinu sem átti að segja mér við hvaða stjórnmálaflokk mínar skoðanir passa best. Niðurstöðurnar voru að þær passa við alla og engan. Hjálplegt. Þó fengu VG, Samfó og Framsókn fleiri stig hjá mér en hinir. Kemur ekki á óvart, en hjálpar mér þó ekkert við ákveða mig.

Ég er samt búinn að ákveða mig. Ég er fyrirsjáanlegur í kosningahegðun minni. Kýs alltaf það sama og síðast ef það er hægt, a.m.k hingað til.

Það er búið að hanna vélmenni sem gera ekkert nema fara þangað sem þeim er sagt, kveikja á hreyfiskynjara og skjóta svo allt sem hreyfist. Ég las það á netinu. Hvað ætli svoleiðis kosti? Bara að spá.

Monday, May 07, 2007


Thursday, May 03, 2007

Vinna, kosningar og biðlistapólitík

Þá er maður kominn aftur í raunveruleikan, orlofið búið og vinnan tekinn við. Það er bara gott að koma í vinnuna og finnast eins og maður hafi aldrei farið neitt. Maður passar bara eins og gamlar nærbuxur.

Þetta verður langt blogg.

Nú styttist í kosningar og þá meina ég ekki bara í Eurovision. Eitt af því sem talsvert er rætt um eru biðlistar. Fyrir þá sem ekki vita eru biðlistar hluti af minni vinnu. Það er erfitt vinnuumhverfi þar sem fólki, upp til hópa, er illa við að bíða. Sérstaklega þegar það er kviknað í húsinu þeirra. Þá vill maður fá slökkvilið til sín strax. Hvað þá þegar börn manns eiga í hlut.

Tveir biðlistar í þessari umræðu vekja sérstakan áhuga minn, annarsvegar sá sem er inn á minn gamla vinnustað Barna- og unglingageðdeild (BUGL) og hins vegar á Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins (GRR). Ein af ástæðum þess að þessir biðlistar eru mér hugleiknir er sá að ég ber að einhverju leyti ábyrgð á þeim, hef sjálfur vísað gommu af börnum á báða þessa staði. Það sem ekki kemur fram í umræðunni er hvernig öll þessi börn komast á þessa stofnanabiðlista. Hvaðan koma þau? Börn komast aðeins á þessa biðlista ef þeim er vísað þangað af sálfræðingum eða læknum. Langstærstum hluta þessara barna er vísað á þessar stofnanir af sálfræðingum sem vinna við skóla og leikskóla.

Og þeim er ekki vísað á þessar stofnanir til greininga nema í örfáum sérhæfðum tilvikum. Skólasálfræðingar eru nefnilega fullfærir um að greina börn, þeir hafa sömu menntun og þekkingu og sömu tæki og tól til greininga og fagfólkið á þessum stofnunum. Greiningu er í raun lokið í langflestum tilvikum. Þeim er vísað á þessar stofninir í von um að þar bjóðist þeim einhver úrræði, þ.e. meðferð, þjálfun, sérkennsla, stuðningur og svo framvegis. Þetta er nefnilega málið: Þessir biðlistar eru fyrst og fremst til vegna skorts á úrræðum!! Þetta sýnist mér enginn stjórnmálaflokkur fatta. Samfylkingin vill til dæmist ráðast á þessa biðlista og eyða þeim með því að skvetta vænni peningasummu í þá. Það er gott og blessað, en eftir 2-3 ár verður staðan aftur sú sama nema menn kveiki á áðurnefndu úrræðaleysi.

Það sem þarf að gera er margt. Það þarf að styrkja skólana sjálfa til að takast á við svona nemendur, stórauka þarf fræðslu, auka og bæta gæði sérkennslu og námsráðgjafar, kenna mönnum á lausnarteymi og jafningahandleiðslu, styðja mjög vel við heildstæð agakerfi eins og PBS og SMT, auka forvarnir innan skólanna hvað varðar hegðunar- og tilfinningavanda, styðja vel við hópúrræði og forvarnpakka eins og Stig af stigi, Hug og heilsu og ART og margt fleira. Ef þetta er gert verða vandamálin færri og skólarnir verða betur í stakk búnir til að takast á við vandamálin sem koma upp. Síðan þarf að styrkja mjög vel þá sérfræðiþjónustu sem skólarnir fá. Staðreyndin er sú að pressan eftir greiningum er svo mikil að skólasálfræðingar eiga fullt í fangi með að sinna þeim (og anna reyndar ekki eftirspurn, sbr. biðlista) auk þess sem hægt er túlka lög þannig að skólasálfræðingar eigi helst ekki að sinna meðferð.

Ekkert myndi fækka biðlistum á BUGL meira en að efla skólasálfræðiþjónustuna, þannig að auk öflugrar greiningarvinnu yrði mikið lagt í úrræði svo sem ýmis námskeið, meðferð, ráðgjöf og eftirfylgd. Í stað áherslu á greiningar yrði áhersla á forvarnir og inngrip. Með þessu mót gæti BUGL orðið sú sérhæfða þriðju línu stofnun sem hún á að vera og aðeins sinnt alvarlegustu og sérhæfðustu málunum. Ég vill taka það fram að vinnuveitundir mínir eru frábærir og hef ég fengið svigrúm til sinna þessum hjartans málum mínum nokkuð. En við það kemst maður enn betur að því hversu mikilvægt það er að teknar séu ákvarðanir þar sem forgangröðuninni er breytt. Vinnan við forvarnir og inngrip er afar tímafrek og gagnast hlutfallslega fáum miðað við tímann sem hún tekur. En hún borgar sig samt til lengri tíma litið.
Auk þessa þarf að bæta almennar forvarnir og fræðslu til foreldra. Uppeldisnámskeið þar sem farið er í grunnatriði um hegðun og aga og sjálfstæði og virka hlustun og algeng uppeldisvandamál eiga helst að vera skilda fyrir alla foreldra, eða a.m.k ókeypis og aðgengileg. Auk þess þarf að stórbæta kennarmenntun og búa fólk sem sinnir börnunum okkar allan daginn undir það að sumir eru ofvirkir, eða leiðist skólinn, eða geta ekki hætt að hugsa um flugvélar, eða læra ekki lesa, eða eru bara óþekkir, eða égveitekkihvað.

Ég vill því meina að biðlistarnir löngu á BUGL og GRR séu ekki vandamálið í sjálfu sér heldur aðeins einkenni mun stærri og alvarlegri sjúkdóms, nefnilega úrræðaleysis í kerfinu. Þetta úrræðaleysi er hinsvegar mest á sveitarstjórnarstigi en BUGL og GRR eru ríkisstofnanir. En það á ekki að skipta öllu máli. Ef mönnum er einhver alvara með það að taka á biðlistum verða menn að ráðast á rót vandans.

Ég þakka þeim er lásu.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?