<$BlogRSDURL$>
[ Gestabók ]
bók fyrir gesti

Wednesday, November 28, 2007

Heyriði nú mig

Ég ætlaði að blogga um lag sem ég trymblaði fyrir D. Geir H. Moritz, kennarefni, athafnamann og tónskáld, um daginn. Það var jólalag með rokkslagsíðu í anda amerískra háskólapilta. Tekið upp á engri stund í stúdíói í Garðaskóla. Garðabær er svo ríkur að grunnskólarnir og félagsmiðstöðvarnar hafa alvöru hljóðupptökuver. Nöts.

Þema upptökunnar var: We are creating musical fusion.

Ég semsagt gleymdi að blogga um þetta lag en það var í jólalagakeppni hjá ónefndri útvarpsstöð og hægt var að kjósa það á netinu. Það vann ekki. Meistari Moritz er þó ekki af baki dottinn og vill nú gera myndband við lagið og smella því á youtube. Það er auðvitað málið. Biðst forláts, Daníel, að hafa klikkað á blogginu.

Í gær var ég líka að tromma en þá skoska þjóðalagamúsík með Óla Fiðlu Egilssyni og Kate kærustu hans, ásamt einhverju fleira fólki sem ég kann lítil deili á. Við vorum að æfa fyrir ceilidh dansiball sem verður í næstu viku. Það er eitthvað við skotland og ceilidh og þessa þjóðlagamúsík sem er svolítið hressandi. Viskíið kannski. Einmöltungar fá Islay bæta, jú, hressa og kæta. Óli er hallur undir Laphroiag en ég hneigist til Ardbeg. Tekið fram að ekkert viskí var haft um hönd við æfingar í gær. Bara Guinness og Kilkenny ale.

Talandi um vökva, þá verður árlegt jólahlaðborð vinnunar næsta föstudag og ætti það að vera ljómandi skemmtilegt.

Undirbúiningur fyrir austurför er á fullu. Við erum að skoða hús. Pæla. Leigja eða kaupa? Svo eru það vinnumálin sem eru, hreinlega, mjög spennandi. Ég var allt eins búinn að sætta mig við að mín menntun þýddi það að ég þyrfti helst að búa annars staðar en á Nesk. Svo virðist aldeilis ekki vera, þarna er fullt af tækifærum og spennandi kostum. Gaman.

Crystal Palace er komið á beinu brautina og hefur nú unnið tvo leiki í röð! Við erum því ekki lengur í fallsæti. Ég trúi því að þetta sé upphafið á óstöðvandi sigurgöngu sem endi með úrvalsdeildarsæti í vor. Ég er alveg viss um það.

Bráðum ætla ég að skrifa blogg sem er í raun og veru UM eitthvað. Ég lofa.

Wednesday, November 14, 2007

Hlaupabóla

Hvaða blað er þetta 24 stundir? Og af hverju heldur það að rannsóknir Pelham bendi til þess að rítalín sé gagnslaust? Skrítið fólk sem augljóslega er ekki aðferðafræðilega sinnað og hugsanlega ekki vel læst. Það má svosem fagna því að menn ræði opinskátt um þessi lyf, mætti vera mun meira um vitræna umræðu um þessi mál almennt að mínu mati, en þetta blað var alveg úti á túni með sína túlkun á niðurstöðunum. En svona er það. Skrif íslenskra dagblaða um sálfræði, uppeldisfræði og taugavísindi eru almennt á skelfilega slöku plani. Því miður eru glanstímaritin svo sem Lifandi vísindi líka ferlega léleg á þessu sviði oftast. Dapurlegt, því þessi fræði eru oft áhugaverð og margt að gerast sem fólk hefði örugglega áhuga á að vita um. Blaðamenn eru flestir að bregðast okkur lesendum allrosalega í sinni, svokölluðu, vísindablaðamennsku. Skömm sé þeim.

Erfðaprinsinn var haldinn hlaupabólu síðustu daga. Fékk hita og varð doppóttur. Hann fékk að fara aftur á leikskólan í morgun og það var svona líka súper dúper gaman. Mátti ekkert vera að því að kveðja foreldra sína, hljóp bara og faðmaði deildarstjórann sinn og stökk svo á einhverj gaura sem voru að hlaupa í hringi. Það er greinilega vanmetin iðja að hlaupa í hringi í góðra vina hópi. Litlu rassgötin.

Ég er með kvef. Það vill ekki fara.

Stórar fréttir. Við fjölskyldan stefnum nú að því að flytjast til kaupstaðarins á Nesi við Norðfjörð. Næsta sumar eða haust. Guðný fær auðveldlega vinnu á spítalanum á betri kjörum en hjúkkur eiga að venjast á Lansanum. Ég veit ekki alveg nákvæmlega hvað ég geri en útlit er fyrir að staða þorpsfífls sé laus til umsókna. Sú staða ku ekki gefa vel í aðra hönd en henni fylgja ýmis fríðindi. Án gríns þá er ég aðeins að hugsa mín mál. Enn sem komið er lýst mér vel á alla þá starfsmöguleiks sem standa til boða fyrir austan. Engin tilboð beinlínis borist, engar umsóknir beinlínis lagðar fram en smá þreifingar í gangi sem lofa góðu. Kemur í ljós.

Þarna er líka hægt að fá einbílishús fyrir pening sem ekki dygði fyrir hundakofa í 101 Rvk.

Vinnan mín er áhugarverðari og meira spennandi í dag en hún hefur nokkurntíman áður verið. Þá er gott að segja upp og flytja austur.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?