<$BlogRSDURL$>
[ Gestabók ]
bók fyrir gesti

Thursday, August 30, 2007

Fréttir af mér

Eru engar.

Nema helst þær að konan mín vakti mig með látum og fyrirgangi í nótt. Ég skildi ekki neitt í neinu í fyrstu og það ástand varði í nokkra stund. Að talsverðum tíma liðnum var ég enn steinhissa og stóreygður af undrun yfir látunum. Stuttu síðar var ég litlu nær. Að lokum tókst blessaðri konunni að koma mér í skilning um, m.a. með látbragði, að Einar Smári hefði gubbað. Einar Smári gubbaði alveg heilan helling. Í rúmið sitt. Og undir það. Og undir rúmið okkar. Og á sig sjálfan. Ég brást við af allri þeirri yfirvegun og skynsemi sem ég bý yfir eftir að vera vakinn snögglega með látum um miðja njótt, það er hljóp í hringi eins og hauslaus hæna.

Þetta atvik hafði það í för með sér að í dag er ég mikið þreyttur í vinnunni. Kaffi bjargar mér. Og rigningin úti gerir alla nett myglaða hvort eð er, svo ég sker mig ekkert sérstaklega úr, nema kannski fyrir ælulyktina sem leggur af mér.

Læknirinn minn sagði mér að samkvæmt niðurstöðum rannókna, framkvæmdum af rannsóknarmönnum á rannsóknarstofu bendi allt til þess að hann hafi skorið nægjanlega stórt stykki úr bakinu á mér um daginn. Ég telst því nú meinlaus HAHAHA......úffffff.
Sárið sem hann skildi eftir sig er samt enn til bölvaðra vandræða og gróir seint og illa. En það verður þó að teljast mun skárra en það sem var þarna fyrir.

Í kvöld verður afmælisveisla hjá Hlyni Afmælisstrák Ben í tilefni þess að hann á afmæli. Erum honum sendar bestu afmæliskveðjur á afmælisdaginn, sem er í dag.

Af-mæli. Hvurslags orð er þetta eiginlega??

Wednesday, August 22, 2007

Þegar hundurinn kom...eða Hva, fílarðu ekki Manowar!?

Ég átti eitt skemmtilegasta kvöld í langan tíma föstudaginn fyrir verslunarmannahelgina. Við félagarnir úr súpergrúppunni Rufuz hittumst ásamt vinum og velvildarmönnum í gömlu flugstöðinni í Nesk og töldum í gamla slagara. Drukkum bjór. Horfðum á 7 ára gamalt fyllerí þar sem myndavél var með í för. Rifjuðum upp gamlar rokksögur. Bulluðum og rugluðum. Mikið var hlegið og fíflast.

Seint um kvöldið var hópurinn tvístraður hér og þar um flugstöðina og nánasta umhverfi í spjalli og fjöri. Róbert vinur minn var að sýna mér nýlegt tónleikamyndband með Manowar. Þvílík snilld. Við tengdum græjurnar við mixer og hljóðkerfi og hækkuðum í botn. Hlógum að miðaldra leðurklæddum rokkurum syngjandi um hetjur og dreka og norræna goðafræði. Sungum með.

Allt í einu var einhver ókunnugur maður staddur fyrir framan okkur. Hann brosti eins og kjáni. Robbi heilsaði honum kumpánlega og hann heilsaði á móti. Svo bað hann okkur um að lækka. Robbi spurði: Hva, fílarðu ekki Manowar?! Ég hló. Maðurinn endurtók beiðni sína og veifaði einhverjum skilríkjum. Á þeim stóð Lögreglan. Robbaði neitaði samt að lækka. Ég lækkaði.

Hann spurði hvað við værum að gera. Jú, við vorum að horfa á Manowar sögðum við. Hann skildi ekki neitt en reyndi að vera vinalegur. Þá tókum við allt í einu eftir því að það var kominn hundur á mitt gólfið og tveir aðrir laganna verðir með honum. Þá föttuðum við hvað um var að vera. Dópliðið var komið að leita. Við hlógum og hlógum. Við reyndum að leika við hundinn en þá var allt vitlaust. Það er víst alveg bannað. Við reyndum að klappa hundinum en máttum það ekki heldur. Við máttum ekki einu sinni gefa honum afgangs pizzu.

Svo duttum við í gírinn. Robbi spurði: Var ykkur hleypt inn? Nei, sagði löggan. Hafiði dómsúrskurð eða rökstuddan grun um fíkniefni á svæðinu? Nei, sagði löggan. Allt í einu vorum við orðnir lögfræðingar. Þið megið ekki koma hérna inn án þess að vera hleypt inn eða hafa dómúrskurð, sögðum við. Alveg eins og Matlock. Fát og fum kom á laganna verði. Jú, sögðu þeir þetta er ekki í eigu ykkur, þetta hús er opinber bygging og þá megum við ráðast inn. Við sögðumst hafa einkaafnot af byggingunni þetta kvöld og því væru þeir í ruglinu. Þeir sögðu að við höfðum ekki, lagalega séð, einkaafnot af opinberri byggingu nema við hefðum skemmtanaleyfi. Við sögðum honum að við værum í hljómsveit og vissum því vel að samkunda þarf að vera fjölmennari en 20 manns til að fyrir henni þurfi skemmtanaleyfi, við vorum bara 11 í partýinu. Meira fát og meira fum. Auðvitað fundu þeir ekki neitt enda aðeins lögleg vímuefni á svæðinu. Við báðum þá um að fara sem þeir auðvitað urðu að gera enda leitin á dökkgráu svæði lagalega séð. Jæja, sagði Robbi þegar hann var búinn að fá nóg af lagalegum rökræðum: Núna ætla ég að hækka aftur, það er nefnilega að koma bassasóló.

Nú er Róbert langt frá því að vera einhver vitleysingur. En það verður að teljast visst áhyggjuefni að hann, á 9. bjór, skuli valta yfir 3 laganna verði (og 1 hund) í rökræðum um grunnforsendur þeirra starfs. Ætli hundurinn hafi ekki bara verið viskulegastur af þeim.

Þess má geta að ekkert fíkniefnamál kom upp á Neistaflugi. Til að tryggja þann árangur áfram á næsta ári mæli ég með að sami mannskapur verði fenginn í dópleitarliðið.

Þetta var ferlega gott partý.

Thursday, August 16, 2007

Bummburubumm bummbumm bummbumm!

Kent töts þiss!

Hvað varð um MC Hammer?

Friday, August 10, 2007

Neistaflug

Það var snilldargaman á Neistfluginu fyrir austan. Föstudagskvöldið stendur uppúr en þá hittumst við Rufuz félagar í flugstöðinni og spiluðum músík og horfðum á myndband sem við tókum upp á fylleríi fyrir 7 árum. Það var ótrúlega gaman. Hápunktur kvöldsins var þegar lögreglan ruddist inn með fíkniefnahund sem þefaði hátt og lágt.

Það er bannað að klappa fíkniefnahundum við skildustörf. Maður lifir og lærir.

Brekkusöngur og ball á sunnudegi var einnig ljómandi. Neistaflugslagið var leikið á sviðinu. Tvisvar. Við allgóðar undirtektir, þó meira hefði mátt bera á dansi og almennum fílingi hjá áheyrendum.

Nú er maður aftur kominn í vinnugírinn og er bara ágætt að falla í sína gömlu rútínu. Ég reikna ekki með því að gera nokkurn skapaðan hlut af viti um helgina. Er það vel.
Mistakes were made (but not by me)

Eitt af fjölmörgu í sálfræðinni sem heillar mig er hvernig fólk réttlætir hegðun sína og skoðanir. Við viljum nefnilega öll trúa tvennu um okkur sjálf; að við séum í grunninn gott fólk og að við séum rökleg, það er að skoðanir okkar og hegðun meiki sens. Hvernig réttlætum við það þá þegar við gerum eitthvað sem ekki er gott eða er órökrétt? Það er nefnilega stórskemmtileg pæling.

Ég þoli til dæmis ekki ef það er níðst á minni máttar og ég er óhræddur við að tjá skoðanir mínar. Svo sit ég á kaffihúsi og starfsfélagi minn sem ég ber mikla virðingu fyrir, er dónalegur og yfirgangssamur við afgreiðslustúlkuna sem er rétt skriðin að kynþroskaaldri. Samt segi ég ekkert. Læt þetta viðgangast.

En auðvitað ekki út af því að ég þori ekki að segja neitt eða sé alveg sama um hvernig komið er fram við fólk, nei, nei, heldur út af því að....ummm...hún var ekkert sérstaklega góð afgreiðsludama og athugasemdirnar voru nú ekkert svo nasty og hún lærir nú bara af þessu. Og bla bla bla. Ég réttlæti hegðun mína einmitt út af því að hún er á skjön við það hvernig ég hugsa um sjálfan mig.

Mamma mín er kona með sterka dómgreind og það talar ekki hvern sem er hana út í það að taka vondar ákvarðanir. Hún kaupir enga vitleysu af tunguliprum farandasölumönnum. Einu sinni var hún þó í símanum við einhvern sölumann og endaðí á því að kaupa af honum rándýra bók um fugla. Réttlætingar í kjölfarið voru dásamlegar, bókin var víst eitthvað svo ferlega flott og afslátturinn svo magnaður. Hún hringdi aftur hálftíma seinna og afpantaði bókina. Það eru ekki allir svo skynsamir.

Svona réttlætingar eiga sér stað alls staðar og á hverjum degi. Líka hjá mér og líka hjá þér. Þær útskýra að talsvert miklu leyti þá tilhneigingu fólks sem gerir eða segir vitleysu til að halda áfram að gera eða segja enn meiri vitleysu.

Maður grefur sér holu og í stað þess að reyna að klöngrast upp úr henni reynir maður bara að grafa af meira kappi í vitlausa átt.

Eitt af því merkilega við þetta er að hversu litlu leyti hegðun okkar virðist úthugsuð og í samræmi við það hvernig okkur finnst við vera. Þetta er afleiðing þess sem heitir grundvallar eignunarvillan, sem er tilhneiging okkar til að vanmeta þátt umhverfisins þegar við leytum skýringa á hegðun. Okkur finnst að fólk hagi sér með vissum hætti út af því að það er þannig fólk. Við segjum ég myndi aldrei hafa gert þetta. Hann er ofbeldisfullur og þess vegna lamdi hann manninn. Hann er skapbráður og þess vegna varð hann reiður. En raunveruleikinn er mun flóknari en svo. Í svipuðum aðstæðum högum við okkur flest nefnilega með svipuðum hætti. Klassískar rannsóknir manna á borð við Milgram (að gefa ókunnugum rafstuð) og Zimbardo (Stanford fangelsis tilraunin) sýna glöggt fram á mátt aðstæðna.

En ég myndi aldrei gefa neinum sterkan rafstraum. Ég myndi aldrei pína saklausa stúdenta í fangaleik. Jú, víst. Þú líka. Það sem verra er, við myndum báðir reyna að réttlæta það.

Fólk sem fengið er til að leysa óspennandi verkefni af hendi í langan tíma finnst verkefnið leiðinlegra ef það fær vel borgað fyrir að leysa verkefnið. Þeir sem fá illa borgað þurfa að réttlæta effortið með einhverju öðru en peningum og segja því að þetta hafi ekki verið svo slæmt. Þetta heitir cognitive dissonance eða hugrænt ósamræmi (held ég að sé rétt þýðing). Við réttlætum effortið. Ef ég eyddi miklum tíma í eitthvað þá var það mikilvægt. Ef ég borgaði mikið fyrir eitthvað þá var það dýrmætt.

Þetta á ekki bara við um hegðun heldur líka um skoðanir. En fullt af skoðunum okkar eru órökréttar og órökstuddar. Fullt af skoðunum okkar eru intúatívar, tilfinningalegar en ekki vel ígrundaðar, við reynum samt að rökstyðja þær. Tína eitthvað til. Finna upp á einhverjum rökum. Við erum jú rökrétt fólk.

Segjum sem svo að systkyni sem kominn eru yfir fimmtugt eyði saman helgi í sumarbústað. Þau ákveða að sofa saman, gera það og hafa bæði ánægju af. Þau nota allar heimsins getnarðarvarnir, hvorugt þeirra er í sambandi við annan aðila. Þau ákveða að gera þetta aldrei aftur og ræða málið aldrei neitt frekar.

Var það sem þau gerðu rangt?

Ó, já. En af hverju? Mér bara finnst það. Ég hef engin rök. En ég reyni að finna þau, ég reyni að réttlæta skoðun mína, því ég er þannig. Ég vil hafa rök fyrir öllu. En sorrí. Þetta er bara rangt en ég veit ekki af hverju.

Þess vegna er ég hættur að rífast um Kárahnjúkavirkjun og álverið í Reyðarfirði. Skoðun mín á þessum málum er ekki byggð á rökum, heldur er hún intúatív. Ég hafði tekið afstöðu áður en ég hafði rök eða forsendur til þess. Auðvitað hef ég eins og aðrir týnt til fullt af rökum seinna meir, en það eru eftirá rök. Ekki raunveruleg ástæða skoðunarinnar. Þess vegna er vonlaust að rökræði við mig um þetta. Skoðun mín er ekki byggð á rökum í þessu tilfelli og því ónæm.

Enn og aftur man ég ekkert hvað ég ætlaði upphaflega að blogga um. Heilinn í mér virðist vera með niðurgang. Verðlaun handa þeim sem lásu allan pistilinn og sérstaklega handa þeim sem getur útkskýrt af hverju hegðun perverta systkynanna er röng.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?