<$BlogRSDURL$>
[ Gestabók ]
bók fyrir gesti

Friday, January 30, 2004

Flöskudagur

Ég bætti gestabók inna á síðuna. Þar er öllum frjálst að leggja eitthvað til málanna.

Í gær spiluðu Búálfarnir á Gauknum ásamt Súellen og hljómsveitinni Tilþrif. Það voru ágætis tónleikar, en í kvöld ætti stemningin að vera enn betri þar sem þá verður um dansleik að ræða.

Ég er nýkominn af leikskólanum Hagaborg þar sem Búálfarnir voru að spila. Lítil börn á þessum aldri eru afar einlægir hlustendur........það fer ekki á milli máli ef þeim líkar eitthvað eða ef þeim leiðist. Þau fíluðu músíkina alveg í ræmur, brostu út að eyrum og dönsuðu.

Minnstu börnin mynda einskonar gengi þar sem inntökuskilyrðið virðist vera að ganga með smekk. Þau voru frábær og þeittu hamingjusamlega sleftægjum í allar áttir í takt við tónlistina. Þau buðu okkur síðan í mat, sem við að sjálfsögðu þáðum. Óli fiðla var þó sár yfir því að aðeins væri boðið upp á vatn að drekka með vatnum, þar sem hann drekkur eingöngu Guinness, og slíku var ekki til að dreifa á barnaheimilinu.

Hlynur vinnur á þessum leikskóla og börnin dýrka hann öll eins guð. Hann kynnti alla meðlimi Búálfana fyrir barnahópnum og hélt svo smá próf: Hvað heitir þessi?? og börnin görguðu í kór: Orri!!! En hvað heitir þessi?? og börnin görguðu í kór: Sindri!! og svo framvegis. Að lokum spurði Hlynur, en hvað heitir hljómsveitin?? þá kom löng þögn.............svo heyrðist veikburða rödd........ummm.......gítar?

Close enough.

Thursday, January 29, 2004

Bloggstuð

Ég er voða duglegur að blogga núna, enda nýbyrjaður. Það á sjálfsagt ekki eftir að endast.......en hvað með það. Ég vil þakka þeim sem hafa sagt fallega hluti um bloggið mitt. Ég hef líka ákveðið að halda pólitískum áróðri í lágmarki, svo einhver nenni nú að lesa þetta. Maður eignast aldrei vini með því að bera sínar pólitísku skoðanir á borð, þeir sem eru sammála manni þegja en þeir sem eru ósammála vilja rífast. Betra að halda þessu bara fyrir sjálfan sig........

Á morgun heldur cand.psych. bekkurinn minn árshátíð. Ég get sennilega aðeins staldrað þar stutt við þar sem Búálfarnir eru að spila á Gauknum um kveldið. Það breytir því ekki að stuðið ætti að vera framúrskarandi. Í síðasta bekkjarpartý mætti ég með heimabökuð skinkuhorn sem mældist afar vel fyrir. Það hefur verið ítrekað skorað á mig að gera slíkt hið sama fyrir þetta partý......en ég er ekki viss um að tími vinnist til baksturs. Ég er of upptekinn við að blogga.

Besta knattspyrnulið í heimi (Crystal Palace) er þessa dagana á mikilli sigurgöngu. Það hefur afar jákvæð áhrif á geðslag mitt. Eftir dapurt gengi framan af tímabili var stjóri liðsins rekinn og Iain nokkur Dowie (eða the ugly big guy) fenginn til að stýra liðinu. Síðan þá hefur gengið afar vel og sigurgangan virðist óstöðvandi, eins og sigurgöngur virðast nær alltaf vera áður en þær eru stöðvaðar.

Sumir eru ekki sammála því að C. Palace sé besta fótboltalið í heimi. Nægir þar að nefna næstum því alla aðra en mig og pabba í heiminum. Máli sínu til stuðnings benda þeir á stöðu liða í deildarkeppninni. Við þetta fólk segi ég að deildarkeppnir eru almennt hvorki áreiðanlegur né réttmætur mælikvarði á gæði knattspyrnuliða. Það er vel hægt að vera bestur án þess að vinna alltaf (eða í raun nokkurn tímann). Vissulega er það afar skemmtilegt að vinna leiki, en sigur er þeim mun sætari ef menn hafa einnig kynnst tapi og mótlæti. Einnig er knattspyrna listgrein og gæði listarinnar verða ekki metin af árangri í kappleikjum frekar en gæði tónlistar verða metin af plötusölu.

Það er því mitt hlutlæga, vísindalega mat að Palace séu bestir. Það er mín skoðun. Ef einhver er ósammála þá hefur hann rangt fyrir sér.

Eitt sem fer í mínar fínustu er fólk sem heldur að allar skoðanir séu jafn réttháar. Svo er ekki. Það að allir hafa rétt á því að hafa skoðun er ekki það sama og að skoðanir allra séu jafn réttháar. Alls ekki. Sumt fólk heldur til dæmis að tunglið sé úr osti. Sú skoðun er ekki jafn rétthá og sú skoðun að tunglið sé úr steinefnum og málmi. Það blasir við.

Nú er ég þeirrar skoðuna að ég sé svangur. Einnig er ég þeirrar skoðunar að afgangur af ljúffengum fiskrétti sem bíður inn í eldhúsi geti seðjað hungur mitt.

Ég ætla að raunprófa þá tilgátu.

Wednesday, January 28, 2004

Frjálshyggjan deyji

Ég hef nýlega skoðað vefi Heimdallar og Frjálshyggjufélagsins. Við skoðun slíkra vefja sannfærist ég enn frekar um það hversu barnaleg hugsjón frjálshyggjfólks er. Nánast hlægilegt. Það fyndnsta er að þeir telja sig verja að verja svo dýrmætan og merkilegan sannleika (sjáiði bara USA). Þeir telja sína skoðun svo afgerandi rétta og þeir telja sig svo gáfaða og sniðuga að vera þessarar skoðunar.

Og að því að ég kemst næst þá eru þeir undantekningarlaust ekki að grínast.

Fólk á alltaf ef mögulegt er að fá að gera það sem það vill. Auðvitað. En það eru takmörk. Eins og svo löngu er orðið ljóst þá nýtir fólk hvert tækifæri til að misnota frelsi sitt og skerða þannig um leið frelsi annarra. Þetta vita allir. Þetta er augljóst.

Mín skoðun er sú að sem flestir ættu að njóta sem mest frelsis. Sameiginlegt frelsi allra ætti að vera forgangur. Til þess að svo megi vera gæti þurft að takmarka frelsi þeirra fáu sem annars myndu misnota það frelsi til að hefta marga aðra.

X-O.

Orraflokkurinn. Við berjumst gegn of-frelsi. Við erum ekki að grínast heldur.

Blogg er lýðræðislegt fyrirbæri. Ég styð málfrelsi að öllu leyti. Hér get ég flaggað mínum skoðunum og fólk ræður bara allveg hvort það les þær eða ekki. Gaman gaman.

Búálfa æfing á eftir. Við erum að fara að spila á Gauknum á fimt. og föst. (29-30 jan) með Súellen. Ég er enn að reyna að sannfæra strákana um ákveðna áherslubreytingu - það er minni tónlist og meiri áhersla á samhæfðan dans. Það er öruggt til að leiða oss til heimsfrægðar og rúmlega það.

Heimur versnandi fer

Það er varla leikin sá knattspyrnuleikur nú á dögum þar sem allir leikmenn lifa af. Þvert á móti virðist það tíðkast á meðal tuðrusparkara að láti lífið í kappleikjum. Kamerúnin Foe er frumkvöðull á þessu sviði og hafa ungverjinn Feher og ónenfndur sænskur 4. deildar leikmaður nú fylgt í kjölfarið. Þetta er uggvænlegt. Slíkt getur komið óorði á íþróttina.

Þetta verður sjálfsagt til þess að áhorfendur fara að heimta endugreitt ef þeir mæta á völlinn og enginn deyr. Blóðþyrstur lýðurinn verður fyrir vonbrigðum ef hjarta- og æðakerfi einhvers leikmanns gefur sig ekki.

Ég skora á knattspyrnuleikmenn heimsins að láta af þessum ósið hið fyrsta. Menn mega bara gjöra svo vel að deyja í sínum eigin frítíma og halda öllu slíku utan vallar, enda óíþróttamannslegt í hæsta lagi.

Sjálfur hef ég tekið þá ákvörðunin að takmarka alla mína knattspyrnuiðkun af heilsufarsástæðum. Það verða svo sem ekki mikil viðbrigði þar sem knattsprynuiðkun mín var engin fyrir. Ég er meira að hugsa um að spila minna fótboltaleikinn minn í Playstation 2. Bara til öryggis.
Hvaða hvaða

Tuesday, January 27, 2004

Þegar ég var lítill stofnaði ég hljómsveit (ásamt drengnum í næsta húsi). Hljóðfæraskipan var eitthvað á þessa leið:

Orri: pottar, pönnur, bækur, gítanó*, blokkflauta og bakraddir.
Róbert: Söngur og blokkflauta.

Það var strax hafist handa við strangar æfingar og æft upp prógram. Æft var í svefnherbergi foreldra minna, þar sem hjónarúmið henntaði vel til uppröðunar á pottum og pönnum til ásláttar. Fljótlega var bókað gigg. Gatan sem við bjuggum við ætlaði að halda sameiginlegt garðpartý og við buðumst til að leika fyrir viðstadda. Af auglýsingaástæðum þurfti hljómsveitin nafn. Haldin var krísufundur þar sem ákveðið var að nefna bandið "Og svo sveiflast frænkan", samnenft einum helsta smelli bandsins.

"Og svo sveiflast frænkan" kom aðeins fram í þetta eina skipti. Ég man ekki betur en að flutningur bandsins hafa mælst afar vel fyrir hjá veislugestum. Að tónleikum loknum snæddu hljósmveitameðlimir pylsur og böðuðu sig í dýrðarljómanum.

Ég hef aldrei síðan verið í hljómsveit með jafn flottu nafni.

*Gítanóið var merkilegt hljóðfæri. Mig langaði í píanó og foreldrar mínir gáfu mér gítar. Þá hugsaði ég eitthvað á þessa leið, píanó+gítar=gítanó. Allir ánægðir.
Síðasta vígið er fallið! Ég hef ákveðið að blogga!! þetta verður gott.............

This page is powered by Blogger. Isn't yours?