<$BlogRSDURL$>
[ Gestabók ]
bók fyrir gesti

Tuesday, April 22, 2008

Draugaverkur, dáleiðsla og X-trail

Við keyptum okkur bíl. Nissan X-trail 4x4 dísilkaggajappa. Eyðir minna en sláttuvél og kemst yfir hvaða fjall sem er. Gæðabíll. Rauður. Landsbyggðarbíll.

Ég er í dag að pakka niður skrifstofunni minni. Rosa skrítinn fílingur sem fylgir því. Þrjú ár liðin og það er nægur tími til að maður festi smá rætur. En ég er samt tilbúinn að breyta til. Sérstaklega þegar ég veit að ég er að fara að takast á við eitthvað mjög spennandi. Ég keyri austur um helgina og á mánudaginn verð ég í fullu starfi hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands.

Guðný og Einar Smári verða örlítið lengur í Rvk en koma svo austur eftir 3-4 vikur. Það verður ekkert gaman að vera í burtu frá þeim, en ég á sennilega eftir að fara suður 1-2 tvisvar á þessu tímabili hvort eð er. Þannig að ég hitti þau nú eitthvað.

Síðasta sunnudag fór ég að finna fyrir verk í munninum, vinstra meginn. Ég var viss um að ég væri kominn með slæma tannpínu. Verkurinn versnaði og á mánudeginum hljóp ég úr vinnunni í næsta apótek til að kaupa verkjalyf. Annars hefði ég ekki meikað daginn. Á þriðjudaginn, viðþolslaus af kvölum, fór ég til tannlæknis og merks fræðimanns sem hefur unnið til alþjóðlegra verðlauna fyrir rannsóknir sínar, Jóns Hafliða bassafants. Hann myndaði tennurnar og potaði í þær með tækjum og tólum, sagði hummm og hahhh og var spekingslegur á svipinn. Hann kvað svo upp sinn dóm: Það var ekkert að tönnunum. Hann náði í annan kall í hvítum sloppi sem ég geri ráð fyrir að hafi líka verið áhugamaður um tannheilsu. Sá gaur gerði það sama og Jón og skoðaði sömu myndirnar og Jón komst að sömu niðurstöðu og Jón: Ekkert að tönnunum.
Hámenntuðu fræðimennirnir í hvítu sloppunum rökræddu þennan dularfulla verk minn og niðurstöður kjaftrannsóknarinnar. Þeir tóku loks snilldarákvörðun, en í henni kristallast sú gríðarlega þekking og færni sem þeir hafa áunnið sér með áralöngu háskólahangsi, brautryðjandi rannsóknarvinnu og umfangsmikilli klínískri reynslu: Við gerum ekkert.

Ég var sendur heim með þær upplýsingar frá mannvitsbrekkunum að annað hvort myndi mér batna eða ekki.

Dag frá degi hefur þetta smátt og smátt skánað og núna er mér nánast albatnað. Ég vill því meina að hér hafi verið um að ræða psychosomatíska tannpínu, það er tannpínu sem á sér sálrænar en ekki vefrænar orsakir. Birtingarmynd ómeðvitaðra hvata minna í garð manna í hvítum sloppum kannski? Eða að ég hafi fengið draugaverk í endajaxl sem búið er að fjarlæga, svipað og fólk sem hefur mist útlim fær kláða og verki í horfna útliminn? Eða að ég eigi það til að gnísta tönnum í svefni þannig að ég verði helaumur og fái heiftarlega vöðvabólgu í kjálkavöðvana sem leiði verk í tennurnar? Enginn veit.

Um helgina var ég dáleiddur í fyrsta sinn á ævinni. Það er ákveðin áhætta sem fylgir því að fá sér í glas með hópi sálfræðinga og að verða einu sinni fórnarlamb dáleiðslu telst bara vel sloppið eftir gott laugardagskvöld í slíkum félagsskap. Sem betur fer varð mér ekki meint af að öðru leyti en því að annað slagið læðist að mér sú óþægilega tilfinning að ég sé í raun sítróna. Og hver veit. Kannski erum við öll, á einn eða annan hátt, sítrónur.

Jæja. Ég ætla að fara að kaupa mér hús.

Friday, April 11, 2008

Biðst innilega afsökunar...

Á að hafa horfið af yfirborði jarðar. Ég hef varla hitt nokkurn mann sem ekki býr eða vinnur með mér í talsverðan tíma. Ég er búinn að vera bissí. Ég hætti í reykjavíkurvinnunni 23. apríl og held í kjölfarið austur. Það þarf að klára ýmislegt og hnýta marga mislausa enda hér áður en ég fer. Svo er það meira en að segja það að standa í því að kaupa hús og bíl og skipuleggja flutninga landshorna á milli. Reyni að bæta eitthvað úr félagsskítsháttnum á næstunni.

Svo gleymi ég næstum því öllu sem ég heyri jafnóðum þessa dagana. Það er aukaverkun af þessum skammti af raunveruleikanum sem ég er á. Ef það er ekki skrifað niður þá veit ég ekki hvar ég á að vera, hvenær ég á að vera þar eða með hverjum. Ég skrifa flest niður.

Ég hlakka til að flytja og hlakka enn meira til að vera búinn að flytja.

Annars hef ég ekkert að segja. Bara ekki baun. Rassgat í bala.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?