<$BlogRSDURL$>
[ Gestabók ]
bók fyrir gesti

Friday, July 27, 2007

1. árs

Einar Smári Orrason varð eins árs gamall síðasta laugardag og var að sjálfsögðu haldin veisla. Það var mikið fjör og pakkaflóðið þvílíkt að ég er hræddur um að við þurfum að fara að flytja því núverandi íbúð rúmar ekki allt dótið sem barnið á. Merkilegt hvað tíminn líður hratt, heilt ár liðið! Ég man ennþá fæðingarvesenið allt eins og það hefði gerst í gær. Á sama tíma finnst manni einhvernveginn eins og maður hafi alltaf átt hann og man varla eftir því hvernig lífið var áður en hann kom. Bilað.

Á þriðjudaginn verður keyrt austur á bóginn. Þar verður slappað rækilega af í góðu yfirlæti og Neistafluginu fagnað ærlega. Hitti vonandi fullt af himpigimpum þar. Ég kem til með að spila örlítið með Daníel Geir og Neistaflugsdrengjunum, þá sérstaklega hið margrómaða neistaflugslag, Leyndarmál.

Ég er í sumarfríi núna. Alveg búinn að jafna mig í bakinu og allt virðist ætla að gróa vel og fallega. Ég er meira að segja búinn að fara út að skokka talsvert síðustu daga. Góður nágranni minn er lögregluþjónn og hann hefur sótt um aðgöngu í sérsveitina, þar sem það eru meiri líkur á því að hann fái að komast í eitthvað alvöru aksjón þar. Kannski fá að skjóta himpigimpi og svoleiðis. Hann semsagt er að þjálfa sig upp í inntökurprófin í þessa sérsveit sem eru víst all svaðaleg og dró mig með sér í skokk, sem er hluti af umfangsmikilli æfingaherferð hans.

Ég vildi að ég gæti sagt að ég hlypi eins og vindurinn með hann í eftirdragi en það væri ekki í fullu samræmi við sannleikann. Hann lemur mig áfram eins og hund, þangað til að ég er orðinn eldrauður í framann, með blóðbragð í munninum og á mörkum þess að missa meðvitund, þá fæ ég að hvíla mig með því að gera armbeygjur. Ég er að drepast úr harðsperrum. En bráðum verð ég svo massaður að ég hætti að geta svarað í símann.

Við ætlum aftur um helgina. Spurning um að sækja um í sérsveitina líka?

Monday, July 16, 2007

Neistaflugið, flugið, flugið

Daníel Geir félagi minn samdi hvorki meira né minna en eitt stykki Neistaflugslag. Í fyrsta sinn í 7 ár verður semsagt lag tengt við hátíðana, sem er til fyrirmyndar. Hann á mikið hrós skilið fyrir þetta framtak sitt. Lagið má nálgast á bloggsíðu hans: danielgeir.bloggar.is

Ég spila á trommurnar í því, auðvitað.

Var hjá lækninum í morgun og hann var svaka skemmtilegur bara. Sárið er ekki lengur sýkt og er að gróa afar vel. Hann sagði að þetta væri ótrúlega vel gert hjá sér og örið ætti ekki að vera jafn slæmt og hann óttaðist fyrst. Ég er orðinn mun hressari, get notað hægri höndina og finn ekkert til í þessu lengur. Þetta er því að ganga ótrúlega vel. Þarf þó enn að taka meðal í nokkra daga í viðbót sem kostar frekar leiðinlegar aukaverkanir, helst þær að þurfa að eyða óratíma á salerninu við það að, jaaa, skíta. Ekkert annað orð til yfir það sem er jafn viðeigandi.

Í gær var ég að hugsa um að mála mig í framan, fara niðrí bæ, stöðva umferð og slást svo við löggur í nafni mótmæla. Ég er svo málefnalegur nefnilega. Vill seiva æslandi geðveikt mikið. En svo mundi ég að ég er ekki þroskaheft hassreykjandi himpigimpi, svo ég hætti við það og vara bara heima.





Friday, July 06, 2007

Í dag fæ ég ís

Þegar ég var lítill og varð lasinn þá stórjukust líkurnar á því að maður fengi ís. Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott.

Allavega. Ég ákvað að blogga um atburði gærdagsins þar sem þetta er örugglega eitthvað sem vinum manns finnst að maður eigi að segja þeim frá, en ég nenni ekki að hringja út um allt til að tala um þetta, þannig að þeir lesa það bara hér. Svo er það nú líka þannig að sögurnar í kringum svona hluti eiga það til að verða skrautlegar þannig að það er ágætt að skrifa þetta hér svo ekki fari eitthvað ruglumbull á flug.

Í gærmorgun hringdi í mig læknir sem hafði tekið sýni úr sári á bakinu á mér fyrir nokkrum dögum síðan. Það er aldrei gott þegar læknir hringir í mann og maður heyrir að hann er stressaður.

Sárið var búið að vera þarna alllengi og það harðneitaði að gróa. Stundum fann ég til í því, stundum klæjaði mig í það, stundum blæddi pínu úr því en lang oftast truflaði það mig ekki neitt. Það bara var þarna. En konan mín sagði mér ítrekað að láta kíkja á þetta. Þetta væri eitthvað skrítið. Ég lét tilleiðast og fór til læknis, sem tók sýni og sendi í vefjarannsókn. Niðurstöður þessarar vefjarannsóknar, tilkynnti læknirinn mér í símann, voru þær að í þessu voru illkynja breytingar. Ókey. Nema hvað þetta voru, útskýrði hún, góðkynja illkynja breytingar. Ókey. Það þýddi sagði hún mér að þetta væri nánast hættulaust, myndi örugglega ekki dreifa sér en þetta ætti samt ekki að vera þarna og það þyrfti að drífa í því að taka þetta. Það er heldur ekki gott þegar læknirinn er klárlega að forðast að nota orð sem maður skilur til að passa að maður verði ekki hræddur. Orðið sem hún var forðast var krabbamein.

Semsagt, ég var með krabbamein. Nema hvað að krabbamein er ekki það sama og krabbamein. Það eru til margar tegundir. Blessunarlega fékk ég einhverja þá aumustu og meinlausustu tegund sem fyrirfinnst að mér skilst. Það dreifir sér nánast aldrei og stækkar hægt. Auk þess var það á best mögulega stað, að sögn læknanna, á bakinu þar sem enginn viðkvæmur vefur er til að skemma.

Það þykir þó ekki skynsamlegt að taka neina sénsa með svona mein þannig að það var ekkert verið að tvínóna við þetta og ég var kominn upp á skurðarborð klukkan 11:00. Þar var ég sprautaður ógeðslega oft. Það var sennilega versti parturinn af þessu öllu samann.

Skurðlæknirinn var hress og skemmtilegur. Honum fannst hann samt þurfa að réttlæta aðgerðina eitthvað meira og gerði það með því að segja mér nokkrar klínískar dæmisögur þar sem krabbamein af sama meiði og mitt hefði orðið fólk að aldurtila. Hugulsamur kall.

Vænt stykki var skorið úr bakinu á mér, brennt fyrir æðar og sárið saumað saman. Klukkan 13:00 sat ég heima, bruddi verkjatöflur og hringdi í vinnuna til að útskýra að ég væri farinn í sumarfrí.

Nú er beðið eftir niðurstöðum vefjarannsókna á “æxlinu” til að fá að vita hvort ekki náðist örugglega að skera það allt í burtu. Mér var sagt að það væri nánast öruggt. Ef ekki þá þarf að skera aftur og taka meira. Sem myndi þýða fleiri sprautur og er því eiginlega ekki möguleiki sem ég gæti sætt mig við.

Þangað til annað kemur í ljós er mér því batnað. Vei!

Konan er búinn að vera einstaklega góð við mig og hefur hugsað um mig í hremmingunum. Ég má nefnilega lítið nota aðra höndina þar sem saumarnir eru á herðablaðinu og handahreyfingar geta hreyft við þeim. Sem er vont fyrir skurðinn. Og hræðilega sársaukafullt.

En það er ókey. Það er ekkert mál að borða ís með vinstri.


This page is powered by Blogger. Isn't yours?