<$BlogRSDURL$>
[ Gestabók ]
bók fyrir gesti

Friday, September 24, 2004

Jólin

Það eru ekki alltaf jólin. En tilhlökkunin núna er gríðarleg. Ég iða.

Pabbi er væntanlegur á hverri stundu. Með pakka!!

Innihald pakkans, þið spurjið??

Búningur. Crystal Palace búningur. Merktur mér. Crystal Palace búningur sem stendur "Orri 11" aftaná.

Ég ætla að klæðast honum alltaf. Sofa í honum, borða í honum, baða mig í honum, læra í honum, hlæja í honum, gráta í honum........

Jólin koma snemma í ár.



Sunday, September 19, 2004

Blessuð tónlistin

Nú eru allir að blogga um músík. Ýmist eru menn að fjalla um eigin spilamennsku, uppáhaldshljómsveitir eða hina eilífu spurningu um hverrir séu betri Bítlarnir eða Stones.

Talandi um þá spurningu þá hefur mér alltaf fundist hún fáránleg. Það er mín skoðun að Rolling Stones hafi ekkert með það að vera nefndir í sömu setningu og besta hljómsveit allra tíma, hvað þá að fólki sé gert að gera upp á milli þeirra. Það er mjög auðvelt. Bítlarnir.

Whisky er gott. Ég elska whisky. Ég elska allt við whisky, litin á því, fallegu flöskurnar, hljóðið í ísmolunum sem sulla um í því. Svo ekki sé nú minnst á bragðgæði 12 ára Irish Tullamore Dew........elska það.

Kennarar bara að fara í verkfall maður.

Um hvað ætlaði ég aftur að blogga?


Wednesday, September 15, 2004

Brjált!!

Það er allt brjálað að gera núna. Sem er voða gaman. Ég er byrjaður á fullu í starfsþjálfun og er nú 3-4 daga í viku niðrá Barna og unglingageðdeild í sálfræðingaleik. Svo eru tvö stór fög í skólanum, Sértækir námsörðugleikar og Meðferð sálmeina á fullorðinsárum, fullt að lesa og nóg af verkefnum þar. Svo er ég að vesanast í lokaverkefninu mínu líka sem fer þó ekki á fullt fyrr en eftir áramót, þó er í mörg horn að líta og nóg að gera við koma þessu á koppinn. Einnig er ég að klára svokallaða "þjálfunareiningu" þar sem ég var með sérkennslumál, er núna að fylgja því eftir, reyna að taka saman og kynna einhverjar niðurstöður og sjá til þess að barnið fái áframhalandi stuðning við námið. Þar fyrir utan er ég líka að byrja á leiðbeinandanámskeiði fyrir SOS uppeldiskerfið sem byggt er á hagnýtri atferlisgreiningu. Þannig að eftir nokkrar vikur hef ég réttindi til að kenna uppeldisnámskeið, án þess að hafa nokkru sinni svo mikið sem skipt á einni kúkableyju.......hehehe.....Hagnýt atferlisgreining rokkar ýkt feitt!

Fyndið, í allt sumar hef ég lítið sem ekkert hlustað á músík. Ekkert verið í mínum vanalegu pælingum á þeim sviði. Svo núna þegar fullt er að gera er alltaf tónlist á fóninum og miklar pælingar í gangi.

Mæli með að fólk tékki á hinum danska Tim Christensen. Ég uppgötaði hann nýlega og fýla sólóplötuna hans í tætlur. Tær snilld hér á ferð. Þess má geta að Tim þessi Christensen var söngvari snilldarhljómsveitarinnar Dizzy Mizz Lizzy sem ég hélt einu sinni mikið uppá. Hann söng líka aðallagið í sjónvarpsþáttunum um Nicolaj og Julie sem RUV sýndi fyrir stuttu. Snilldar lag þar á ferð.

allavega......best að reyna að fara að læra eitthvað.........

Monday, September 13, 2004

Blogg í dag.

Ég vill byrja á því þakka Matta frábæra þátttöku í spurningaleiknum. Þetta var að vísu trick question, það kemur nefnilega hvergi fram hvorki í mynd né bók hvað aðalpersóna Fight Club heitir! hahaha.....ég er nú meiri kallinn....

Fór í tvö afar góð partý síðasta laugardag. Fyrst var haustfundur Hreðjólfs þar sem fóru fram intellektúal umræður yfir íslenkskri kjötsúpu og öli. Sálfræðinördar að plana hvernig best skuli beita þeirri valdablokk sem Hreðjólfur er að verða í æsispennandi heimi íslenskrar sálfræði, þar sem takast á mörg öfl, bæði ill og góð. Að því loknu var farið í bekkjarpartý og haldið áfram öldrykkju þó intelektúal umræðurnar hafi fallið á lægra plan. Svo var farið í bæinn að íslenskum sið. Öldrykkju haldið áfram af áfergju og umræðurnar, sem áður höfðu áður verið intelektúal, viku fyrir óhefluðum dansi. Er ég ekki mikill dansmaður og sannaðist það enn frekar við þetta tækifæri. Vill þó þakka nærstöddum fyrir að hafa ekki gert grín að mér. Aðgát skal höfð í nærveru sálfræðinga.

Palace skíttapaði í sjónvarpsleik gegn Portsmouth. Ussususs! Palace átti skot í slá, það var ranglega dæmt af þeim mark og þeir klúðruðu víti auk þess að skora tvö sjálfsmörk. Þetta er ekki uppskrift að velgengi. Það er stundum svo erfitt að halda með þessu liði.....

Endum í dag á tilvitnun í James Brown: Ain´t no problem that can´t be solved with dancing!

Þar skjátlast honum.




Friday, September 10, 2004

The all dancing all singing crap of the universe

Ein af mínum uppáhalds bíómyndum er Fight Club. Henni er leikstýrt af mínum uppáhalds leikstjóra, David Fincher, og gerð eftir skáldsögu hins frábæra rithöfundar Chuck Palahniuk. Jafn góð og myndin er verð ég að endurtaka þessa gömlu klisju: bókin er betri. Hvað með það! Myndin er snilld fyrir þær sakir að ná bókinni svo vel, það er óþarfi að lesa hana hafi maður séð myndina.

Minnstu munaði þó að framleiðslu á myndinni væri hætt vegna einnar setningar sem persónan Marla segir við Tyler Durden eftir ástarfund þeirra í húsinu við Paper Street. Stúdíóið sem framleiddi myndina sagði við Fincher leikstjóra að myndin færi ekki dreifingu ef eftirfarandi setning væri ekki fjarlægð úr myndinni: Marla og Tyler liggja í faðmlögum í rúminu og Marla segir: I want to have your abortion!. Rómantískt ekki satt?
Fincher varð brjálaður og krafðist þess að myndin yrði óbreytt en stúdíóið stóð fast á sínu. Upphófst mikil deila. Á síðustu stundu gaf Fincher eftir og féllst á að breyta setningunni, rétt áður en auglýstur útgáfudagur myndarinnar rann upp. Svo lítill tíma var þá til stefnu að yfirmenn stúdíósins fengu aldrei að sjá lokaútgáfu myndarinnar......hefði svo verið er ekki víst að heimurinn hefði nokkru sinni fengið að sjá þessa dásamlegu mynd. Í stað fyrri setningarinnar lét Fincher Marla segja við Tyler: I haven´t been fucked like that since grade school!!

Spurning hvort fyrri setningin sé ekki bara skárri?

Spurning dagsins: Hvað heitir aðalpersóna Fight Club myndarinnar, sá sem Edward Norton leikur?

Gagnslaus vísbending: I am Jack´s medulla oblongata.

Tuesday, September 07, 2004

Ahhh....

Þriðjudagsmorgnar eins og þessir gera það að verkum að manni langar að vera eilífðarstúdent. Fer ekki í skólann fyrr en eftir hádegi. Haustringing úti, kaffibolli og góð bók í hönd og Damien Rice að væla úr sér hjartað á fóninum. Ahhhhhh......

Svona stundum missir maður af ef maður vinnur á eðlilegum vinnutímum. Sem námsmaður ræður maður sér meira sjálfur og getur stundum leift sér frí fyrir hádegi.......

Og það er oft besti tíminn til að eiga frí, sérstaklega þegar það er rigning.

Á morgun fæ ég ekki frí fyrir hádegi. Þarf að fara á fund vegna starfsþjálfunarinnar sem ég tek þessa önn. Það er allt í fínasta lagi.

Svo vil ég minna fólk á að Crystal Palace verða í sjónvarpinu á laugardaginn. Ekki mega menn missa af því.

Ég held ég fái mér annan bolla.



Friday, September 03, 2004

Ferðalög og heimkoma.......og trúlofun

Ég var að koma heim úr alveg hreint snilldar ferðalagi. Ég fór til tvenna landa sem ég hafði aldrei komið til áður. Í fyrsta lagi Danmerkur þar sem ég dvaldi í Köben og í öðru lagi Ítalíu þar sem ég dvaldi í Mílanó. Báðar þessar borgir eru magnaðar hvor á sinn hátt. Þær eiga það sameiginlegt að vera ævafornar og því mikið af sögufrægum stöðum, söfnum og byggingum sem hægt er að skoða. Þær eru líka báðar höfuðborgir, Köben er höfuðborg Danaveldis og Mílanó er höfuðborg Lombardy héraðs Norður-Ítalíu og var á tímum Napóleons höfuðborg konungsveldis hans yfir Ítalíu. Eftirminnilegast staður sem ég kom á í þessara ferð er þó Lago di Garda, eða Gardavatnið. Það er svo fallegt þar að það er bara rugl. Bara rugl. Í bæ sem heitir Desenzano del Garda og liggur við þetta vatn er löng og mjó hlaðinn bryggja, með vita, sem gengur út í vatnið. Á enda þessarar bryggju, umlukinn Gardavatninu og með Alpana til annarar handar og Po sléttuna til hinnar fylltist ég rómantískum innblæstri (hugsanlega í fyrsta og eina skiptið á ævinni) og bað Guðnýju mína að giftast mér. Hún gat ekkert annað sagt en já, þar sem hálft ferðalagið var eftir og nei svar hafði alveg eyðilagt það.

Allavega, ef einhverjir vinir mínir vita þetta ekki nú þegar þá tilkynnist það hér með. Maður nennir nú ekki að hringja í alla og segja þeim fréttir. Til þess er internetið.

Margt annað skemmtilegt gerðist í þessu ferðalagi og mun ég með ánægju segja hverjum sem neinnir að hlusta ferðasöguna í smaátriðum. Eitt það besta við svona ferðalög er hvað maður lærir mikið á því að þurfa að fóta sig í erlendum löndum. Sérstaklega var Ítalía lærdómsrík á þann hátt þar sem fáir Mílanó búar tala ensku. Mér er minnistætt þegar við Guðný röltum frá hóteli okkar niður að lestarstöð (Stazione Centrale, sem er magnað mannvirki) og ætluðum að taka lestina í miðborg Mílanó, eða Downtown eins og það heitir á kortinu sem við vorum með. Þegar á stöðina er komið kemur í ljós að þar eru rosa margar lestir og við vitum ekkert í hverja þeirra við eigum að fara. Við finnum skillti sem stendur á Information, en slík skillti eru hið heilaga gral túrista. Við förum þangað og stöndum í röð. Svo kemur að okkur og viti menn, enginn sem vinnur í upplýsinga miðstöðinni fyrir ferðamenn talar ensku. Þau eru líka nett pirruð út í okkur fyrir að tala ekki ítölsku. Að lokum finnst þar starfsmaður sem að eigin sögn talar "little bit, little bit" í ensku. Hann hlustar þolinmóður á meðan við reynum að útskýra hvert við viljum komast. Starfsmaðurinn virðist ekkert skilja og gerir enn eina lokatilraun til að tala ítölsku við mig. Ég endurtek fyrri útskýringar á ensku og hann hlustar, ekki jafn þolinmóður og áður. Eftir smástund lifnar yfir starfsmanninum og bros skilningsins færist yfir varir hans. Hann segir hughreystandi: "si si si". Loksins, loksins hugsa ég. Hann tekur lítin miða, skrifar eitthvað á hann og réttir mér svo. Núna er starfsmaðurinn skælbrosandi og greinilega ánægður með þessa niðurstöðu samskipta okkar. Á miðanum stendur "ATP". Ég gekk út.

Hef ennþá ekki grænan grun hvað í fjandanum "ATP" átti að þýða.

Allavega, við komust á endanum Downtown og það var voða gaman.




This page is powered by Blogger. Isn't yours?