<$BlogRSDURL$>
[ Gestabók ]
bók fyrir gesti

Thursday, September 29, 2005

Vöðvakall

Nú er heilsuræktarátak í gangi á mínu heimili. Við höfum fengið okkur kort í ræktina og hef ég mætt þar oft síðastliðnar tvær vikur. Þar hamast ég í einhverjum tækjum þar til mér liggur við meðvitundarleysi, tapa fyrir konunni minni í skvassi og er farinn að renna hýru auga til lyftingartækjanna. Þetta er alveg þrælhressandi get ég sagt ykkur.

Þegar maður er kominn í vinnu og hættur háskólastússinu þá ræður maður tíma sínum betur. Maður getur því auðveldlega skipulagt daginn þannig að maður komist í ræktina.

Ekki láta ykkur bregða þótt ég verði orðinn helmassaður þegar ég hitti ykkur næst. Helmassaður. Og bumbulaus. Eða bumbuminni.

Ég læt mér ekki nægja að stunda ræktina heldur hef ég einnig tekið að æfa hinu göfugu íþrótt blak. Ég æfði blak af krafti sem unglingur og var um tíma nokkuð liðtækur. Blak æfi ég nú með kvennaliði Landspítalans. Hafa tilþrif mín þar vakið þvílíka eftirtekt að nú er rætt um að Landspítalinn sendi kynjablandað lið til að keppa á erlendum mótum svo kraftar mínir fái að njóta sín á alþjóðavettvangi. Það er gott að æfa blak með konum.

Spurning hvort maður taki ekki bara allan hnakkapakkann á þetta fyrst maður er byrjaður að fara í ræktina. Eins og Gilzenegger (sem ég hitti oft í ræktinni) segir: “Massaður, tannaður, strípaður og köttaður. Eina leiðin til að fara í gegnum lífið.”

Respect.
Orrzanegger

Wednesday, September 21, 2005

Klukk

Ég geri mér litlar vonir um að fólk nenni að lesa það sem stendur í síðustu bloggfærslu þar sem hún er löng og hefur takmarkað afþreyingargildi. Lesiði hana samt. Þið hafið gott af því.

En nú er búið að klukka mig tvisvar, bæði af Heiðu Maríu og Knútnum. Here goes:

1. Ég átti síli sem gæludýr og skýrði hann "Blautur" af augljósum ástæðum. Móðir mín myrti hann með því að eitra fyrir honum með osti.

2. Ég var nánast óhuggandi þegar það var í fyrsta skipti útskýrt fyrir mér að lambalæri sem var í matinn heima væri í raun löpp af rollu. Sá fyrir mér rollugrey að skakklappast um á þremur fótum.

3. Ég borða ekki grænmeti.

4. Ég hef verið kýldur í magan af presti. Ekki í ganni.

5. Ég hef kveikt í hárinu á annarri manneskju. Viljandi. Og með full samþykki hinnar manneskjunar. Undir áhrifum áfengis. Það var skemmtilegra en þið getið ímyndað ykkur.

Þar hafiði það. Klukka Hlyn, Guðnýju, Burran, Ólaf Arnar og alla bara......
Erfitt að vera ég

Það getur verið mjög erfitt að vera sálfræðingur vegna þess að allir hafa skoðun á fólki og hegðun þess. Oft heimskulegar skoðanir sem það engu að síður talar hátt og mikið um. Meira að segja fólk sem ætti að vita betur, mikið menntaðir stjórnendur fyrirtækja, skólastjórarar, kennarar og leikskólakennarar og fleiri, halda stundum á lofti heimskulegum hlutum sem hinum heilaga sannleika. Og já, margir sálfræðingar líka. Nú verður uppfræðsla til lýðsins viðhöfð hér. Kennd verður gagnrýnin hugsun og tæklaðar vondar hugmyndir sem seljast vel. Verkefni dagsins: Tilfinningagreind.

Í öllum skólum og leikskólum sem ég hef komið í, og þeir eru margir, er eintak af bókinnin Tilfinningargreind eftir blaðamanninn Daniel Goleman. Ég er oftast spurður í þessum stofnunum af brosandi fólki hvort ég hafi nú ekki lesið þessa bók. Fólk virðist halda að þá sýni það fram á hversu vel það sé með á nótunum í því nýjasta og flottasta í sálfræðinni. Til að forðast umræður svara ég alltaf: nei, og brosi blítt á móti.

Tilfinningagreind er hugmynd sem Goleman þessi stal frá ágætum sálfræðingum sem heita Mayer og Salovey og er í sjálfu sér ágæt, rannsóknahæf hugmynd.
Goleman hins vega afbakar hugmyndina og sullar eigin bulli og dæmisögum saman við og endar með tóma þvælu sem allir vilja kaupa dýrum dómi. Til að þið þurfið ekki að lesa þvæluna skal ég segja ykkur hvað Goleman vill meina með bók sinni: Það er mikilvægara að vera nice en að vera klár.

Það er stóri sannleikurinn. Rökin eru þessi: Greind spáir ekki fyllilega fyrir um árangur fólks í lífinu. Sumir sem eru greindir gengur ekki vel (af því að þeir eru ekki næs) og sumir sem eru vitlausir gengur vel af því að þeir eru svo næs. Vá, snilld.

Samkvæmt Goleman hefur því tilfinningagreind meira forspárréttmæti en venjuleg greind. Þetta er auðvitað tómt bull. Fátt spáir betur fyrir um afdrif manna í lífinu en greind þeirra. Þessi forspá er að sjálfsögðu ekki fullkominn en almennt séð er nokkuð óhætt að fullyrða að Albert Einstein sé almennt líklegri til árangurs en Goggi greindarskerti. Það er augljóst.

En hvað með að vera nice? Er það ekki bara fínt? Jú, auðvitað er það fínt en spáir það fyrir um árangur í skóla, vinnu eða lífinu almennt. Því miður hefur Goleman verið of upptekinn við að telja peningana sem hann græddi af bóksölunni til að framkvæma raunverulegar rannsóknir sem gætu staðfest stóru fullyrðingarnar hans. En aðrir sálfræðingar hafa rannsakað eitthvað svipað. Þeir hafa að vísu talið sig vera að rannsaka persónuleikaþætti sem kallaðir eru agreeableness og extraversion, en það var bara að því að Goleman var ekki búinn að segja þeim að það að vera næs heitir að hafa mikla tilfinningagreind. Niðurstaðan: Því miður hefur það sáralítil áhrif á árangur fólks í skóla, vinnu og lífinu almennt að vera næs. Það er betra að vera að klár durrtur en næs sauður. Sorry.

Engu að síður eru til fjölmörg fyrirtæki sem borga morðfjár fyrir námskeið og starfsmannastjórnunarráðgjafa og ég veit ekki hvað og hvað sem byggja alla sínu vinnu á tilfinningagreind. Heilu skólarnir (um 700 bara í USA) byggja allt sitt skólastarf í kringum kenningar Golemans um tilfinningagreind. Menn eru að reka fullt af stofnunum á tómu bulli.

Þetta er því miður ekki einsdæmi. Þó síður sé. Allt of mikið af fólki sem á að vita betur er ginkeypt fyrir tískutraumum og dellulausnum sem koma frá pop-sálfræði.

Ég legg til að eftirfarandi menn hafi gríðarmikla Marðasetningargreind (Smárason, 2005): Ron Davies, Howard Gardner og Daniel Goleman.

Ég mun skrifa bók um Markaðsetningargreind fulla af reynslusögum af þeim þremur. Haldbær rök, umfangsmikil þekking og rannsóknir munu ekki vera hluti af þeirri bók enda slíkt alls ekki hjálplegt við það markmið mitt að selja skrilljón eintök.

Munið: Það er gott að hafa opinn huga en ef hann er of opinn er hætt við að allt detti úr honum.

Gangrýnislaus hugsun drepur.

Thursday, September 01, 2005

Hvað segja stjörnurnar?

Nú er kominn endanleg, óvéfengjanleg og óumdeilanleg sönnun á réttmæti og nákvæmni stjörnuspeki. Ég krefst þess að þessi merka vísindagrein verði kennd í grunnskólum. Leggja má niður dönskukennslu í staðinn.

Hinni óvéfengjanlegu sönnun er lýst í eftirfarandi frásögn: Í dag var mikið að gera hjá mér í vinnunni. Það kemur kannski fáum á óvart þar sem ég er sálfræðingur. En í dag var svo mikið að gera að ég gleymdi að borða hádegismat. Bara stone-forgettaði því. Fattaði þetta þegar ég fór með minni heittelskuðu að borða eftir vinnu og fannst ég vera óvenju svangur.......
Svo kem ég heim eftir vinnu og matinn og heimsæki við það tækifæri klósettið mitt ágæta. Hef með mér Blaðið til að stytta mér þar stundir. Lendi svo í því að vera búinn með allt Blaðið áður en ég var búinn með minn bissness á salerninu. Því les ég, aldrei þessu vannt, stjörnuspána í Blaðinu sem neyðarúrræði. Ég vissi bara ekki hver ég ætlaði (sennilega ekkert langt miðið við þá athöfn sem ég var upptekinn við, en samt....) þegar ég las það sem þar stóð en það var nokkurn veginn þetta hérna: "Þú gætir verið það upptekinn í dag að þú gleymir að borða. Reyndu að hafa eitthvað lítilræði við hendina þegar blóðsykurinn fer að lækka".
VÓ! Hugsaði ég. Vó!
Þetta var bara einmitt það sem gerðist. Hefði ég lesið stjörnuspánna fyrir vinnu hefði þetta verið betra, ég hefði verið undirbúinn.......

Núna er ég að enduskoða alla afstöðu mína til heimsins og hvernig hann virkar.....
Heppni að ég las þetta á klósettinu samt, því annars hefði geta orðið subbulegt slys.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?