<$BlogRSDURL$>
[ Gestabók ]
bók fyrir gesti

Sunday, February 29, 2004

Lommasinnafinn

Einu sinni var bjór bannaður á Íslandi í 77 ár. Því var breytt fyrir fimmtán árum. Þessi 15 bjórár hafa verið mjög skemmtileg.......sennilega skemmtilegri en öll árin sem upplifði fram að þeim. Það er kannski ekki eingöngu bjórnum að þakka.....og þó.

Ég og Hróbjartur góðvinur minn hefum ýmislegt baukað í gegnum tíðina. Til að mynda sökktum við okkur einu sinni í nýyrðasmíð. Við fundum fullt af góðum orðum um hluti sem okkur fannst tilfinnanlega vanta orð yfir. Verst er að við höfum eiginlega gleymt þeim öllum. Eitt munum við þó ennþá og það er "lommasinnafinn". En það þýðir "litla plastdótið á endanum á skóreimum"........þetta nýyrði verður sennilega arfleifð okkar. Íslensk tunga stendur í þakkarskuld við okkar.

Þessari helgi eyddi ég aðallega á ráðstefnu fyrir fræðimenn þar sem fjallað var um arfleifð atferlisstefnunar á 21. öld. Afar merkilegur kall sem heitir Stephen Ledoux sem er prófessor við Canton í NY hélt þar erindi um "behaviorology" en það er hópur fólks sem vill að atferlisstefnan kljúfi sig frá sálfræði og seti á laggirnar nýja fræðigrein sem rannsakar mannlega hegðun útfrá sjónarmiði náttúruvísinda og þeir vilja kalla "behaviorology". Ég var svo heppinn að fá að funda með Dr. Ledoux daginn fyrir ráðstefnuna og spjalla þar soldið við hann..........hann er klár kall og hefur mikið til síns máls. En ég er honum ósammála náttúrulega.....enda ekkert gaman af öðru.

Svo ég vitni nú í Floyd: united we stand, devided we fall (fall....fall.....falll.....falll......osfrv).

Thursday, February 26, 2004

Uppfærslur

Ég hef tekið nútímatækniframförum opnum örmum og bætt við kommenta kerfi hér á síðuna. Mæli eindregið með því að fólk kommenti þar á allan fjandann. Þar geta óábyrgar og ómálefnalegar umræður átt sér stað.....

Megi mátturinn fylgja yður....

Wednesday, February 25, 2004

Hér sé fyrirsögn

Ég bjó einu sinni með tuttugu pólverjum sem horfðu á skíðastökk á Eurosport allan sólarhringinn. Með þessum mönnum deildi ég eldhúsi, klósetti og sturtu en engu öðru. Þeir töluðu mjög litla ensku og ég er frekar slappur í pólsku þannig að við bjuggum saman í þögn og sátt og samlindi í heilan vetur. Ég gæti ekki sagt ykkur hvað einn einasti þeirra heitir. Alveg merkilegt. Ég dró snemma þá ályktun að þeir væru frekar illa gefnir. Sjálfsagt bara fordómar. En maður verður að spyrja sig, hvað er svona spennandi við skíðastökk? Enn þann dag í dag grunar mig að þeir hafi séð eitthvað í skíðastökkinu sem ég bara fattaði alls ekki.

Ég hef aldrei lesið jafn mikið og gerði þennan vetur.

Einu sinni var landsleikur á milli Íslands og Póllands þennan veturinn. Landsleikurinn var í knattspyrnu en ekki skíðastökki. Þeir kröfðust þess að ég horfði á leikinn með þeim. Sem ég og gerði. Þeir voru allir í hátíðarskapi og höfðu sumir þeirra vafið sig inn í pólska fánann. Þeir drukku mikinn vodka á meðan leiknum stóð. Það færðist fjör í leikinn og þeir urðu allir vel kenndir. Fóru að hrópa og syngja pólska baráttusöngva. Í hálfleik skiptu þeir aftur yfir á skíðastökkið, gleymdu fótboltanum og horfðu samfleitt á skíðastökk í tvo daga.

Ef þeir höfðu ekki skíðastökk þá þurftu þeir vodka. En ef þeir höfðu skíðastökk þá þurftu þeir ekkert.

Ég er feginn að búa með kærustunni minni núna sem hvorki hefur áhuga á skíðastökki né vodka.

Monday, February 23, 2004

Bíó


Oft er gaman að fara í bíó. Ég fór í bíó í gær. Það var gaman. Ég sá mynd sem heitir Gothika. Hún fjallar um geðlækni sem nær sambandi við draug og lendir sjálf inn á geðspítala. Ég vildi meina að myndin sé póst-modernísk skopstæling á innrás Hannibals frá Karþagó á Rómaborg og ferðalagi hans yfir alpana á 36 fílum. Myndlíkingarnar skírskota klárlega til veðurfars alpanna á þessum tíma. Ég gæti þó verið að oftúlka það.......

Gaman samt hvað maður getur lært mikið gagnlegt af góðum bíómyndum. Gothika staðfestir til dæmis það sem ég hef fyrir löngu lært af öðrum myndum. Það er að geðspítalar eru alltaf gömul, drungaleg, afskekkt hús sem standa á hæð og ef hægt er að koma því við eru geðstofnanir alltaf reistar á fornum indíánagrafreitum. Það er gott að vita.

Eitt sem er leiðinlegt samt eru litlar stelpur sem fara á svona myndir í þeim tilgangi einum að öskra eins mikið og hátt og þær mögulega geta. Þær eiga bara að gera það heima hjá sér og leyfa mér að vera í friði í bíó. Beljurnar atarna.

Farinn að sigra heiminn.......með spekingslegum svip......

Wednesday, February 18, 2004

5 ár!!

Það er undarlegt til þess að hugsa að 5 ár séu liðin frá hinu örlagaríka þorrablóti VA þar sem sú hljómsveit sem nú heita Búálfar fæddist. Óli Fiðla kom að máli við mig nokkru fyrir blót og spurði mig hvort ég vildi ekki halda fyrir hann takti á meðan hann sargaði á fiðlu. Þá hafði Óli átt fiðluna í ca. korter og æft sig samfleitt í 10 mín. Ég hélt það nú og lagði til að við fjölguðum í hópnum. Fiðlan tók vel í það og Óli líka. Við Hlynur höfðum þá stundum verið fullir saman með góðum árangri og því var tilvalið að hafa hann með. Einnig kunni hann á gítar.

Svo vatt þetta uppá sig og ákveðið var að leika sem skemmtiatriði á þorrablóti nokkur írsk þjóðlög. Það var gert og gekk vel. Ofviðri var þegar blótið var haldið og því komst sú hljómsveit sem átti að sjá um ballið ekki, var veðurteppt í afdölum. Einn meðlimur þeirrar hljómsveitar (sem heita Paparnir) var þó mættur á svæðið, þar sem hann hafði komið fyrr um daginn. Til að redda ballinu tóku því verðandi Búálfar sig til og spiluðu ásamt þessum eina meðlimi Papana eitt stykki ball. Lýðurinn trilltist og ljóst var að eigi var aftur snúið. Búálfar voru fæddir.

Til að fagna þessum merku tímamótum í mannkynssögunni verður haldið partý á Jóni Forseta föst. 20 feb frá 23-03. Þar verður frítt inn og tilboð á barnum. Búálfar munu leika á meðan stemning og ástand meðlima leyfir.

Spakmæli dagsins: ´"I´d rather have a bottle in front of me than a frontal lobotomy".

Saturday, February 14, 2004

Nostalgía

Ég var að þvælast inn á magnaðri heimasíðu Neb Runylh (eða H.Ben) og fór að hlusta á gömul lög frá fyrri tíð. Sérstaklega Rufuz lög. Sum þeirra finnst mér bara ennþá helvíti góð. Gaman að þessu, það kviknar hjá manni gamall Heavy Metal púki (með horn og hala).

Megi rokkið lifa.

Hvað er málið með sokka? Þeir eru seldir í pörum en um leið og þeir koma inn fyrir hús míns dyr þá skiljast þeir að og sjást aldrei saman framar. Ég á bara staka sokka!! Ég er farinn að halda að hugmyndin um sokkapar sé bara útópískur draumur, ímyndun sem á sér enga stoð í raunveruleikanum. Einhyrningar fataskápsins.

Mig dreymdi um daginn að ég ætti kettling. Svo vaknaði ég og síðan hef ég mikið saknað kettlingsins míns.

Fyrir þá sem halda að ofskynjanir séu sniðugar og skemmtilegar og taka jafnvel lyf til að kalla þær fram, þeim færi ég þetta ráð: Farið að sofa. Hvað haldiði að draumar séu?

Gaman að lesa bloggið sitt og hugsa: samhengislaust raus.

Wednesday, February 11, 2004

Nellys og BRJÁN

Það er mjög mikilvægt að fólk mæti til að sjá Búálfana spila á Nellys á morgun og á BRJÁN showinu á Broadway á föst.

Þetta verður busy helgi hjá mér. Fyrst ber að nefna þesi tvö Búálfagigg. Á laugardag fer ég svo í afmæli í Mosfellsbæ frá 20-23. Að því loknu fer ég á fund hjá hinum merka klúbbi Hreðjólfi. Sá klúbbur er félagskapur meistaranema í sálfræði af karlkyni. Afar virðulegt. Auk þessa þyrfti maður helst að ná að læra eitthvað líka. Úffpúff. Svo verða ma og pa og Jóka systir í heimsókn og það þarf að sinna þeim eitthvað. Brjálað.

Éf síðustu Hreðjólfsfundi er eitthvað að marka þá er ansi líklegt að sunnudagurinn verði ónýtur.

spakmæli dagsins: In the land of the blind the one-eyed man is king.

Monday, February 09, 2004

Spelahelgin búinn

Búálfar spiluðu á Jóni forseta á föst og það var mikið stuð. Svo var spilað á Broadway á laugardag fyrir eitthvað árhátíðarlið og það var.........athyglisvert.

Námið hefur setið á hakanum þess dagana vegna anna við spilerí. Nú skal bætt úr því og lært eins og fjandinn sjálfur í dag. Og á morgun líka. Og hinn. Sjáum til eftir það.

Annars er allt gott að frétta úr Orrheimum. Palace vinnur hvern leikinn á fætur öðrum og er það ánægjulegt. Ég keypti mér áskrift af Sýn fyrir þennan mánuð sem þýðir mikið tuðrusparksgláp. ´

Ég hef ákveðið að setja inn nýjan lið hér á síðunna sem nefnist speki dagsins. Að þessu sinni á spakmælinn betri helmingur minn hún Guðný.

Speki dagsins: "Þótt þú leysir vind og heyrir ekki í prumpinu þá þýðir það ekki að þú sért orðinn heyrnarlaus".

Alveg rétt. Mikill sannleikur.

Thursday, February 05, 2004

Johnny President

Bara að minna fólk á að mæta á Búálfana, föst. 6. feb á Jóni Forseta sem áður hét Vídalín. 500kr inn. Það mæta allir. Engar afsakanir.

Annarð gerðust þau undir og stórmerki í vikunni að Crystal Palace fjárfesti í nýjum leikmanni. Slíkt er alls ekki daglegt brauð á þeim bænum. Sá heppni heitir Mikele Leigertwood og er miðvörður að mennt. Hann var keyptur frá Wimbledon fyrir 150.000 pund. Sagan segir að hann þyki góður leikmaður sem gerir þetta að mjög óvanalegum kaupum fyrir Crystal Palace. Gott er fyrir liðið að fá nýjan miðvörð þar sem aðrir miðverðir liðsins þjást ýmist af hárri elli eða krónískum hæfileikaskorti, nema hvort tveggja sé. Mörg lið voru á höttunum eftir Mikele vini mínum og buðu þau honum gull og græna skóga. Hann valdi þó Palace að lokum þó svo að honum stæði til boða meiri peningar annarsstaðar. Það sýnir mér að annaðhvort tekur hann knattspyrnulegan metnað sinn fram yfir græðgi eða að hann sé greindarskertur. Sama hvort er þá á hann frá og með þessum degi skilyrðislausa ást mína.

Velkominn hr. Leigertwood. Velkominn heim.........

tár

Tuesday, February 03, 2004

Oflæti

Síðasta blogg mitt var skrifað eftir að ég hafði drukkið of mikið kaffi. Mér finnst að fók eigi ekki að þurfa að bera ábyrgð á því sem það segir eða gerir eftir ca. 4 kaffibolla. Þetta mætti vera í lögum. Mig grunar að sjálfmorðssprengjuárasir og Kvennalistinn og önnur dularfull fyrirbæri gætu verið afleiðingar of mikillar kaffidrykkju. Maður fyllist atorkusemi og vill breyta heiminum í samræmi við einhvern göfugan málstað..........stórhættulegt.

Dómsmál ættu að snúast mest um það að sérfræðingar leggji mat á hversu mikið kaffi sá ákærði hafi drukkið daginn sem afbrot var framið. Ef það eru meira en kannski 4 bollar þá ætti ekki að láta nokkurn mann bera ábyrgð á gjörðum sínum. Það er bara sanngjarnt.

Kannski að maður geti meira að segja farið í mál við Gevalia eða BKI eða eitthvað. Svipað og gert er við sígarettufyrirtækin. Pæling.

Ég er farinn að hella upp á.

Monday, February 02, 2004

Psychobabble

Allir hafa áhuga á sálfræði. Við erum öll meira og minna sífellt að reyna að útskýra hegðun og hugsun náungans. Þetta leiðir m.a. til þess að fólk notar fullt af "sálfræðilegum" hugtökum með vitlausum eða asnalegum hætti. Stundum eru þetta skiljanleg, eðlileg mistök en stundum er fólk að reyna að slá um sig með einhverjum "fræðum" og endar bara í tómu bulli. Þetta sér maður daglega í Fréttablaðinu, Fólki með Sirrý, í lýsingum íþróttafréttamanna, í partýum, viðtalsþáttum o.s.frv. o.s.frv.........

Ég hef ákveðið að taka saman smá lista um algeng mistök á þessu sviði. Listin er langt frá því tæmandi, þetta er bara það sem mér datt í hug rétt í þessu.

Sjálfstraust. Hver kannast ekki við setningar eins og: "Jói er búin að hitta úr öllum skotum sínum í dag og hreinlega geislar af sjálfstrausti". Þetta er mjög algengt og vitlaust. Hversu mörgum skotum Jói hittir úr í dag hefur afar lítil áhrif á sjálfstraust hans. Sjálfstraust eða skoðun einhvers á eigin getu og hæfileikum er eitthvað sem þróast á mörgum árum eða áratugum. Atburðir sem gerast á nokkrum mínútum hafa sáralítil áhrif þar á. Að reyna byggja upp sjálfstraust leikmanna (eins og þjálfarar gera stundum) hálftíma fyrir leik er svipað því og að láta allt liðið lyfta lóðum til að byggja upp vöðvamassa hálftíma fyrir leik.

Innri maður eða innri tilfinningar o.s.frv. Þetta er bara heimskulegt. Hver í fjandanum er þessi innri maður? Sumir fæðast með dautt tvíburafóstur fast við sig, ef það er innvortis mætti kannski tala um innri mann. Annars ekki. Sumir tala um að það sé mikilvægt að rækta sitt innra tré. Þetta hljómar vel í fyrstu, en nýlegar framfarir í líffæra- og lífeðlisfræði hafa leitt í ljós að trjágróður í innyflum er enginn. Innri hitt og innra þetta er bara bull. Í stað þess að segja "minni innri maður" á að segja "ég".

Undirmeðvitund. Stundum eru allir Freudistar. Oft heyrir maður mikið talað um hvað undirmeðvitundin er merkileg og hvað hún skipti nú miklu máli. Það eru allir uppfullir af bældum minningum, löngunum og þrám. Anal-karakterar eru að farast úr Ödipusarduld og reðuröfundin er að drepa kvenfólkið. Menn ættu að fara afar varlega á þessum slóðum. Vissulega erum við ekki meðvituð um allt okkar hugarstarf, en undirmeðvitundin er ekki staður þar sem gríðarleg átök bældra hvata eiga sér stað. Sumir kjósa kannski að trúa slíkri vitleysu en það er bara til að þeim finnist það vera meira spennandi fólk en það í raun og veru er.

Geðklofi. Hér er ekki hægt að vera fúll eða reiður út í fólk. Þekkingarleysi almennings á geðsjúkdómum er ekki endilega almenningi sjálfum að kenna. Það er afar algengt að hugtakið geðklofi sé rangt notað og því ætla ég að fjalla um það hér. Til að byrja með: GOLLUM ER EKKI MEÐ GEÐKLOFA!! Þegar tveir eða fleiri persónuleikar eru til staðar hjá sama einstaklingunum er sá hinn sama ekki geðklofasjúkur. Slíkt fólk (og Gollum líka) þjáist af röskun sem nefnist á ensku "dissociative identity disorder", á íslensku yfirleitt kallað klofinn persónuleiki. Þess má geta að þessi greining er afar umdeild og ekki ljóst hvers eðlis röskunin er.
Öðru máli gegnir um geðklofa. Geðklofi er erfðatengdur sjúkdómur sem orsakast ef boðefnaójafnvægi í heila. Einkenni geðklofa geta verið margskonar og skiptist geðklofi í nokkra undirflokka. Algengast er þó að sjúklingar missa að einhverju eða öllu leyti tengsli við raunveruleikann, ofskynjanir og ranghugmyndir eru algengar.
Geðklofasjúklingar eru yfirleitt ekki hættulegir og afar sjaldan ofbeldisfullir. Því er engin ástæða til óttast sérstaklega söguna um geðklofa fjöldamorðingjan.

Ef einhver vill benda mér á fleiri hugtök sem þessi sem eru misnotuð í daglegu máli. Eða eru ósammála því sem ég hef hér haldið fram, þá er þeim bent á að tjá sig í gestabókinni.

Jafnvel spurning um að setja upp einskonar "Kæri sáli" í gegnum gestabókina? Svara spurningum með óábyrgum og fordómafullum hætti? Og þó...........................

Í næsta þætti: Áhrif framheilaskaða á kynhegðun.

Sunday, February 01, 2004

Displacement activity

Fyrir þá sem ekki eru sleipir í erlendum tungumálum þá er fyrisögn þessa pistils tilvísun til merkilegs fyrirbæris. Þetta fyribæri lýsir sér þannig: Það er mikið að gera og manni er ljóst að ef maður kemur sér ekki bráðlega að verki þá er maður í djúpum saur. Námsmenn sem hafa upplifað próftíð vita hvað ég meina. Maður hugsar jæja nú byrja ég! Stendur upp og dregur djúpt andann.............þá tekur maður eftir því hvað veggurinn í stofunni er ljótur og hugsar.....það þyrfti nú að fara að mála hérna. Svo maður málar.

Ótrúlegur er sá hæfileika mannskepnunnar til að finna sér eitthvað annað að gera en hún ætti að vera að gera. Ég þarf að lesa núna.............en er að blogga. Svo ætla ég að taka til. Svo ætla ég að borða þorramat með Guðnýu, Trýtilbuxa og Hulle í kvöld. Með þessu áframhaldi verð ég farinn að lesa á miðvikudaginn. Displacement activity.

Eitt af því athyglisverðasta við að vera lærður í fræðum sálarinnar er að maður veit oft hvað hlutirnir heita á fræðimáli, getur leitt út bæði röklegar og empirískar skýringar á fyrirbærinu, vísað á heimildir fyrir þá sem vilja kynna sér málið betur og samt verið fórnarlamb þessa fyrirbæris alveg eins og allir aðrir.

Þeir sem aldrei læra neitt eru heppnir. Þeir hafa öðlast vanþekkingu sína með mun auðveldari hætti en til dæmis ég sem fór í háskóla. Ég hafði mikið fyrir vanþekkingu minni.

Ég skemmti mér konunglega á föstudagskveldið. Fór fyrst í frábært partý með kollegum úr candinum og svo á Gaukin að spila með Búálfunum. Það gekk vel. Svo voru heimsóttir nokkrir helstu skemmtistaðir borgarinnar og var það ljómandi skemmtilegt. Hlynur Ben á þakkir skilið fyrir blómið sem hann gaf mér. Hann verður stundum soldið desperat svona seint á kvöldin.

Enn sigra Kristalshallarmenn. Wimbledon lágu í valnum í gær. 4 sigrar í síðustu 5 leikjum. Ég vil meina að það sé allta nýja stjóranum Dowie að þakka og íþróttasálfræðingnum sem hann réði. Við erum að taka þetta á sálfræðinni. 3-1 og Andrés Jónsson skoraði 2. Hann er snilli.

kveðjur.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?