<$BlogRSDURL$>
[ Gestabók ]
bók fyrir gesti

Thursday, February 28, 2008

Hvað heitir það aftur?

Þegar maður er ekki nógu veikur til að vera heima en alveg nógu veikur til að finnast vinna fáránlega erfið. Það heitir eitthvað. Man ekki hvað.

Ég er þannig. Með gríðarlega hálsbólgu. Ég sagði skólahjúkrunarfræðingi sem ég hitti að ég væri næstum örugglega með barkabólgu. Hún hló að mér og sagði að það væri nú eiginlega bara það sama og kvef. Ég móðgaðist því hún gerði lítið úr þjáningu minni. Þegiðu þá bara, sagði ég við hjúkkuna og vann þar með rökræðuna. Hún viðurkenndi ósigur með því að hlæja að mér meira.

Á morgun mun Hlynur Benediktsson frá Starmýri við Norðfjörð halda útgáfutónleika vegna geislaplötunar Telling Tales sem kemur út, líka, á morgun. Þeir verða á Gauknum. Það er búið að redda pössun og við skötuhjúin ætlum að bregða okkur af bæ og njóta tóna meistarans. Það er að segja ef barkabólgan verður ekki búin að fella mig af velli.

Reyndar tefst platan hans eitthvað í útlöndum og kemur ekki í búðir fyrr en í næstu viku. Ástæða tafarinnar ku vera útlitsgalli. Spurning hvort það sé mynd af Hlyni á plötunni.

Í síðustu viku fórum við í foreldraviðtal á leikskóla Einars Smára og seinna sama dag í 18 mánaða skoðun á Heilsugæslu. Á báðum stöðum fékk maður gott tækifæri til að þjálfa hjá sér alveg nýja færni sem felst í því að taka við hrósi fyrir hönd afkvæmis síns. Hann hljóp allsber um skoðunarherbergið á Heilsugæslunni og settist berrassaður á alla sótthreinsaða fleti sem hann fann. Innst inni í mínun innri púka vonaði ég að hann myndi kúka á gólfið. Hann gargaði svo eins og stunginn grís þegar hann var sprautaður hjá lækninum en var fljótur að jafna sig og sendi viðkomandi heilbrigðisstarfsmanni nokkra fingurkossa á leiðinni út. Sló í gegn með því auðvitað. Hann er soddan rassgat.

Hann er farinn að myndi setningar sem samanstanda af tveimur orðum. Vinsælust er “ekki lúlla”. Þetta bíður upp á tilgangslausustu rökræður sem hægt er að hugsa sér. Reyndar mætti segja að rökræður við 1 og hálfs árs gömul börn hafi almennt lítið upp á sig.

Hverdagslegt dæmi:

ESO: Ekki lúlla.
Við: Jú, lúlla.
ESO: Ekki lúlla.
Við: Það er nótt, farðu að lúlla.
ESO: Nei.
Við: Jú.
ESO: Ekki lúlla.
Við: Lúlla
ESO: Ekki lúlla. Nei, nei, nei, nei, nei.
Við: Farðu að sofa barn!
ESO: Ljós! Ljós! Usssda!

Svo kveikir hann ljós. Baráttan töpuð.

Það var að hvarfla að mér fjarlæga náttborðsljósin. Gæti virkað.

Wednesday, February 06, 2008

Stjórnarskipti


Konan mín sagði við morgunverðarborðið í gær að greinilegt væri að það hefðu orðið stjórnarskipti á fleirum stöðum en í borgarstjórn Reykjavíkur meðan hún var erlendis. Hún vildi semsagt meina að Einar Smári hefði náð ansi góðum tökum á heimilinu í hennar fjarveru og sæti nú þar einn við völd. Ég veit ekki hvað skal segja við því. Hann er slóttugur sá stutti því ég hélt að ég væri með fína stjórn á þessu, en hún segir að hann sé bara að spila með pabba sinn. Slóttugur, ef satt reynist.

Einar Smári fór með náttfötin á leikskólan í morgun og megum við eiga von á því að hann komi málaður heim. Það er öskudagur, skilst mér.

Svo var nú keyrt á mig í morgun. Smá beygla á hurðinni farþegameginn. Sökudólgurinn var útlensk stelpa á bílaleigubíl sem bakkaði á okkur. Hún var voða sorry yfir þessu greyið. Merkilegt samt að það sást ekkert á hennar bíl. Ætla Nissan Micra séu ekki sterkbyggðustu kaggar í veröldinni? Maður spyr sig.

Svo fyrir þá sem eru forvitnir og hafa ekki enn fengið fréttirnar þá eru atvinnumál mín kominn hreint. Ég er búinn að ráða mig til Heilbrigðisstofnunar Austurlands og mun vera verkefnisstjóri yfir verkefni sem heitir Aðstoð við börn með geðraskanir. Ætlunin er að auka, bæta og samþætta þjónustu fyrir börn og fjölskyldur sem glíma við vanda í fjórðunginum fagra. Legst gríðarvel í mig. Ég hætti hér hjá borginni í apríl og fer fljótlega austur í kjölfarið, reikna ég með.

Sjálfsagt mun ég blogga eitthvað meira um þetta þegar á líður.

Svo verður skoskt ceilidh dansiball á Nasa annað kvöld þar sem ég mun berja bumbur. Reyndar líka tónleikar, samtímis, hjá Hlyni Ben. Sem ég missi þá af. En. Það verður ekki á allt kosið.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?