<$BlogRSDURL$>
[ Gestabók ]
bók fyrir gesti

Wednesday, September 26, 2007

Self-help and actualization movement

Afkvæmið tók upp á því um daginn að fara að segja nafnið sitt. Hvað heitir þú? Eiiiiiiiinah. Gríðarleg fagnaðarlæti brutust út í hvert sinn sem hann svaraði: Eiiiiiiiinah. Foreldrar hans kunna sér þó ekki hóf og nú er svo komið að barnið harðneitar að taka þátt í þessu. Við ofnotuðum þetta. Hann fékk nóg.

Hvað heitir þú? Nehh. Þú heitir Eiiiinnnnaaaarrrrr. Hvað heitir þú? Neh.

Mamma ætlar að koma í heimsókn um helgina. Kannski nennir hann að svara henni. Það verður gott að fá mömmu.

Er að lesa frábæra bók núna um sjálfshjálpariðnaðinn, sem heitir SHAM, en það er skammstöfun fyrir Self-Help and Actualisazation Movement. Þessi iðnaður veltir tæpum 10 milljörðum dollara á ári. Dr. Phil og Tony Robbins og John Gray og félagar hafa það ágætt. En þessi bók, auk þess að færa nokkuð gild og góð rök gegn sjálfshjálpariðnaðinum almennt, er mikið í því að grafa upp skítinn á þessa gúrúa alla saman og það er auðvitað frábært. Þetta lið er allt gjörspilltir hræsnarar sem græða formúgu á sauðunum.

Já, sauðunum.

Ef þú ert tilbúinn til að borga 50.000 kall til að horfa á milljarðamæring í jakkafötum hoppandi um svið og gargandi: You gotta want it!!! á meðan hann gefur liðinu í fremstu röð high-five, þá ert þú sauður. Þó að það komi töff leisersjó í kjölfarið.

Það er enginn skortur á sauðum.

Hér er athyglisverð staðreynd: Sjálfshjálpariðnaðurinn þrífst á repeat business.

Ég minnist þess ekki að hafa haft jafn mikið að gera síðan ég byrjaði að vinna. Áður fyrr hefði ég sligast undir álaginu. En núna finnst mér þetta bara svolítið gaman, að vera svona bissí. Ég held að ég hafi náð einhverskonar tökum á því sem gúrúarnir kalla tímastjórnun. Mér tekst að skipuleggja mig þannig að ég kem öllu í verk án þess að vera alltaf á nippinu með það og að farast úr stressi. Flestu kem ég meira að segja í verk nokkuð fljótt og vel. Gúrúarnir virðast hafa rétt fyrir sér með öllum klisjunum sínum, skipulag, forgangsröðun, jákvæðni, virðing fyrir tíma sínum og hæfileikinn til að segja “nei” þegar þarf, eru allt lykilatriði. Ekki þar með sagt að ég sé ekki að vinna einhverja yfirvinnu, jújú, þetta gengi ekki öðruvísi en yfirvinnan er ekki kvöð eða pína. Hún er bara ágæt. Partur af programmet.

Það er skítakuldi úti skaléskoseyjikkur.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?