<$BlogRSDURL$>
[ Gestabók ]
bók fyrir gesti

Wednesday, December 10, 2008

Stóra Jólasjóvsmálið

Stundum gleymi ég því að ég bý í litlum bæ. Oft gleymi ég því að það les stundum einhver það sem ég skrifa hér.

Sem fyrr segir, fórum við Valdi á barinn síðustu helgi og slysuðumst inn á lokakaflann á jólarokksjóvi Brján. Við fórum eins og gömlum hljómsveitarbrölturum sæmir að ræða um sjóvið, skynjuðum strax að það var mikil ánægja meðal gesta og ákváðum því, auðvitað, að vera alfarið á móti þessu. Fundum þessu allt til foráttu og sögðum öllum sem vildu heyra hvað þetta væri nú slappt. Valdi sagðist ætla að blogga um þetta, eitt stykki harðort eins og hann orðaði það, og hvatti ég hann eindregið til þess.

Valdi hefur síðan tekið út bloggið sitt um þetta og beðist afsökunar á því sem hann sagði. Ég hef ekki séð hvað hann skrifaði. En ég heyrði í honum í dag og hann hló svo mikið af þessu öllu saman að hann kom varla upp orði. Þannig að hann hefur það gott. Og auðvitað er þetta ógeðslega fyndið.

Allavega, ég viðurkenni það að ég var ekki mikið að hugsa um að fullt af fólki hefði lagt mikið á sig og unnið hörðum höndum að því að gera þetta vel.
Vill taka fram að ég þekki marga sem fóru á sjóvið og hef bara heyrt jákvæðar umsagnir, bæði um matinn og skemmtunina.

Það eru allir mjög ánægðir með að það sé Egilsbúð, jólahlaðborð og Brjánsjóv. Meira að segja ég og Valdi.

Keep on truckin.

Monday, December 08, 2008

Bloggletiverðlaunin

Ætli ég sé ekki búinn að vera einn slakasti bloggari heimsins þetta árið. Kannski að ég bæti það upp á næsta ári. Kannski.

Núna er nefnilega sá dásamlegi tími árs þar sem maður ákveður að gera betur á næsta ári. Tími vona og væntinga. Ég gæti skrifað langa grein um markmiðssetningu og hvernig henni er best háttað til að auka líkur manns á árangri. Þá list að færa vonir og drauma inn í raunveruleikann. Hvernig þeir sem kunna að setja sér markmið ná betri árangri en þeir sem ætla “bara” að gera sitt besta. En enginn myndi nenna að lesa það. Líka erfitt að láta það ekki hljóma of tjísí og Brian Tracy-legt.

Það er allt mjög gott að frétta. Heldur betur.

Eins og einhverjir hafa kannski rekið sig á hef ég áhuga á mannsheilanum, þroska hans og þróun. Ég á líka tveggja ára gamalt tilraundýr sem vekur upp hjá mér sífellt nýjar spurningar um heilann, þroska og þróun. Tilraunadýrið er um þessar mundir að velta fyrir sér litunum. Hann kann suma litina vel, sumum ruglar hann stundum saman og suma þekkir hann alls ekki. Hann spyr oft hvernig hitt og þetta sé á litinn. Um daginn sagði hann að húsið okkar væri eins og sólin á litinn. Sem er auðvitað rétt.

Ég kíkti á hvað menn vita um litina og heilann. Jú, kemur kannski ekki á óvart að mest virkni er í vinstra heilahveli (m.a. málstöðvum) þegar fólk nefnir, flokkar og aðgreinir liti, fyrir utan auðvitað sjónstöðvar í hnakkablaði. Hins vegar eru líka vísbendingar um það að hjá börnum sem eru ekki búin að læra að setja orð á litina sé meiri virkni í hægra heilahveli. Það sem virðist gerast við máltöku er að hæfileikinn til að flokka og aðgreina liti færist frá hægra heilahveli (sem oft er tengt við heildarskynjun, tilfinningar og innsæi þó það sé gríðarleg ofureinföldun að segja að það sé eitthvað sem hægra heilhvelið sjái alfarið um eða stjórni) yfir í það vinstra, sem oft er tengt við rökvísi, sundurgreiningu og tungumál.

Þetta finnst mér gríðarlega merkilegt. Einar Smári er að færa litina á milli heilahvela núna. Er það nema von að hann ruglist stundum.

Annað.

Ég kíkti með Valda Hetju á H. Ben á barnum síðasta föstudag. Við komum frekar snemma og sáum endinn á jólasjóinu sem flutt var meðan fólk tróð í sig hlaðborðskræsingum. Alveg án þess að vera neitt bitrir að sárir, vorum við Valdi sammála um að þetta sjó væri undir pari. Frekar slappt. Eiginlega bara glatað. Sérstaklega gerðum við athugasemdir við hvað við skynjuðum litla jólagleði frá hljóðfæraleikurunum. Við Valdi erum mjög sanngjarnir gagnrýnendur eins og allir sem þekkja okkur vita.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?