<$BlogRSDURL$>
[ Gestabók ]
bók fyrir gesti

Wednesday, August 06, 2008

Lífsgæði

Mér þykir rosalega gaman að búa í Neskaupstað. Það er gentilett.

Neistaflugið var að klárast. Ég spilaði á trommur á tvennum tónleikum þá helgi, 90´s rokktónleikum í Egilsbúð sem heppnuðust ágætlega (fyrir utan fyrstu 3 lögin...) og svo á tónleikum Hlyns Ben á laugardeginum sem gengu vonum framar. Ég spila miklu meira á trommur í Nesk en fyrir sunnan. Gentilett.

Við ætlum að njóta flestra lífsins gæða, við fjölskyldan, þar sem við erum núna bæði fullnuma í okkar fræðum og fáum launaseðla mánaðarlega í verðlaun fyrir það. Manni hlakkar til öll námsárin að klára og fara að hala inn pening svo maður geti gert það sem manni langar. Það kemur mér samt á óvart hvað manni langar mikið í einfalda og plebbalega hluti. Til dæmis fengum við okkur áskrift að Stöð 2. Syndsamlegt. Og ég fékk mér auðvitað fótboltann líka, þ.e. stöð 2 sport 2. Svo fengum við okkur tvo afruglara (við eigum tvö sjónvörp) svo ég geti horft á fótbolta á meðan Guðný horfir á Opruh eða eitthvað. Syndsamlegt. Í gær gekk ég svo frá kaupum á Xbox 360 leikjatölvu sem kemur bráðum með póstinum. Já. Ég spila tölvuleiki. Og mér finnst það gentilett. Við eldum mikið af tælenskum mat. Syyyyndsaaaamleeeegt. Við eigum tvo bíla en ég er farin að labba oftast í vinnuna ef ég þarf ekki að fara út úr bænum. Það er líka gentilett. Við eigum okkar eigið hús sem er alltaf að komast nær því að verða fullklárað og við innréttuðum að miklu leyti sjálf. Dásamlega syndsamlegt. Við erum að skoða hvað við gerum með sólpallinn okkar. Við erum að skoða hvort við komumst í utanlandsferð í haust/vetur. Syndsamlegt.

Ég hef keypt fáar bækur, enga tónlist, engin eðalvín, engin listaverk, engar góðar bíómyndir...ekkert sem talist getur menningarlegt í tilgerðarlegasta skilningi þess orðs. Ég er bara svo ánægður með Stöð 2, Xbox og trommusett í bílskúrnum. Ég er plebbi.

Þetta er auðvitað ástæðan fyrir því að við fluttum. Til að stunda syndsamlegt líferni.

Eina sem skyggir á er að þvottavélarskömmin er biluð. Varahlutir þó á leiðinni og mamma þvær af okkur larfana á meðan. Hvar væri maður án mömmu sinnar?

Einar Smári er mikið hjá ömmu sinni og afa þar sem leikskólinn dettur ekki inn fyrr en í lok þessa mánaðar. Þau eru bæði heima þessa dagana þar sem Jóka systir er að fara að eignast næsta barnabarn þeirra einhvern tímann bráðlega.

Litla barnið lúlla í maganum, segir Einar Smári og hittir naglann á höfuðið.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?