<$BlogRSDURL$>
[ Gestabók ]
bók fyrir gesti

Monday, June 30, 2008

Innflutningur

Þá höfum við sofið okkar fyrstu nótt í óðalssetrinu að Gilsbakka 9. Okkar húsi. Loksins. Fluttum inn í gær, enda höfum við núna rafmagn, klósett og rennandi kalt vatn. Hvað er hægt að biðja um meira? Jú, það er hægt að biðja um eldavél sem virkar, sturtu sem virkar, heitt vatn, tengda þvottavél og eldhúsvask, en það er allt að koma. Vonandi í dag eða á morgun. Já, og sjónvarps/loftnetstengi. Og nettengingu. Kemur allt rétt bráðum. Vonandi.

Allir orðnir svolítið þreyttir á framkvæmdum en jafnframt glaðir með að sjá fyrir endan á þessu. Í bili.

Það verður sko fínt að fá útborgað á morgun. We could use the money. Þáttur iðnaðarmanna varð mun stærri í framkvæmdunum en gert var ráð fyrir.

Næsta stóra verkefni er auðvitað að skipuleggja innflutningspartýið ógurlega. Þá skal vera fjör.

Það var mikilvægt að flytja inn í gær, á sunnudegi, því annars hefði það tafist frameftir vikunni. Amma mín kenndi mér nefnilega að það væri gott að flytja á sunnudögum því að þeir eru til sælu. Mánudagar eru til mæðu og þriðjudagar til þrautar. Minnir mig. Man ekki hvernig er með aðra daga en þeir eru örugglega allir meira og minna ómögulegir. Þetta var því afar mikilvægt.

Einar Smári er í fyrsta sinn að eignast eigið herbergi og er hann verulega ánægður með það. Honum finst líka gaman að eiga heima í húsi þar sem hann getur hlaupið svolítið um og keyrt um á litlu þríhjóli eða dótabíl. Það var ekki hægt á 50 fermetrunum á Eggertsgötunni. Ánægðastur er hann samt með garðinn, því hann vill helst alltaf vera úti að vesenast eitthvað.

Stór verkefni fyrir framtíðina: Garðurinn og pallurinn.

Ég veit að ég er bara að blogga um húsið og framkvæmdirnar um þessar undir. En þetta tekur bara yfir líf mans. Allt annað er á hold, nema vinnan. Svo skal ég viðurkenna það að mér finnst þetta pínkuponsu oggulítið gaman.

Monday, June 09, 2008

Gilsbakki 9

Á krepputímum er rétt að halda að sér höndum, auka ekki á skuldir sínar og draga úr fjárútlátum. Þess vegna keypti ég mér bara eitt hús, einn jeppa og eyði ekki nema öllu mínu sparifé í að gera upp téð hús. Fyllsta aðhalds er gætt í hvívetna.

Gengum frá kaupum á húsinu í gær. Erum búin að vera í tæpar tvær vikur að framkvæma í húsinu, því við fengum það afhent á góðum tíma. Við erum búin að rífa niður nokkra veggi (3-4 eftir því hvernig maður skilgreinir vegg), mála allt húsið að innan, erum að skipta alveg um gólfplötur í eldhúsinu, erum að leggja parket á mest allt húsið, breyta geymslu í herbergi, setja nýjar veggplötur á eldhúsið og hluta herbergis, búinn að panta eldhúsinnréttingu sem þarf að setja upp, setjum nýjar veggplötur á allt baðið, ný baðinnrétting og blöndunartæki og seinni í sumar verður skipt um flesta glugga. Húsið verður fínt. Mjög fínt.

Við gerum þetta langmest sjálf. Í dag erum við reyndar með rafvirkja og smið, en þeir eru bara í einn dag að ganga frá sérhæfðum málum. Píparinn kemur og gerir sitt bráðlega. Annað gerum við. Tengdaforeldrar mínir Einar og Madda eru í húsinu öllum stundum og eru verkstjórar framkvæmdanna. Við Guðný erum þarna þegar við erum ekki að vinna. Mamma og pabbi koma og taka tarnir þegar þau geta. Það er gott að eiga góða að. Á meðan á þessu stendur búum við fjölskyldan inná mömmu og pabba. Það er auðvitað ljúft.

Mikið verður gaman að flytja inn.

Ég get eiginlega ekki talað um neitt nema hús og framkvæmdir akkúrat núna.

Nýja vinnan gengur vel. Er að verða allsvaðalega brjálað að gera og verkefnið varla komið af stað.

Best að blogga um vinnuna smá þar sem það er enn eftir. Ég vinn semsagt hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) og er verkefnisstjóri fyrirbæris sem kallast Aðstoð við börn og ungmenni með geðrænan vanda á Austurlandi. Við skammstöfum það ABG. HSA fékk styrk frá Heilbrigðisráðuneytinu til að ráða mig til að sinna þessu verkefni, það er hluti af aðgerðaráætlun ríkistjórnarinnar í málefnum barna og ungmenna. Þó svo að ég starfi hjá HSA er verkefnið samstarfsverkefni í eðli sínu, að samstarfinu koma, auk HSA, Skólaskrifstofa Austurlands, Svæðisskrifstofa málefna fatlaðara, Félagsþjónustan í Fjarðabyggð og á Fljótsdalshéraði, Verkmenntaskóli Austurlands og Menntaskólinn á Egilsstöðum. Allir þessi aðilar munu gera með sér samning um að auka og bæta þjónustu í þessum málaflokki, fyrst og fremst með auknu samstarfi, undir formerkjum ABG. Hluti verkefnisins er sá að ég starfi innan HSA sem klínískur sálfræðingur. Sá hluti verkefnisins er kominn vel af stað og gæti gleypt allan minn tíma, ef ekki er gætilega farið. Við erum að planleggja ýmislegt í þessu verkefni og verður spennandi að sjá hvernig okkur reiðir af. Verkefnið er tilraunaverkefni til 3 ára og verður endurmetið eftir 1 og hálft í ljósi þeirrar reynslu sem þá verður kominn.

Það er óhætt að vera spenntur fyrir þessu.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?