<$BlogRSDURL$>
[ Gestabók ]
bók fyrir gesti

Monday, January 21, 2008

Sjóv

Ég fór á showið á Broadway síðasta föstudag. Nú í fyrsta sinn voru bara ungliðar í BRJÁN að spila. Föstu liðirnir, gömlu jálkarnir sem alltaf hafa spilað þessi sjó með mismikilli aðstoð yngri og óreyndari manna, tóku sér frí. Ég óttast mjög allar breytingar og þetta fór ekki vel í mig þegar ég frétti af þessu fyrst. Gaman að sjá að ótti minn var óþarfur. Ungliðarnir spiluðu sig í gegnum þetta allt saman eins og hetjur. Söngvararnir allir fínir. Maður fær það á tilfinninguna á svona showum að það getir nú bara nánast allir sungið, því hið ýmsasta fólk stígur á stokk og gaular sig í gegnum perlur poppsögunnar eins og það hafi aldrei gert annað.

En það geta ekki allir sungið. Það eru bara svo mikið af hæfileikafólki fyrir austan. Eitthvað í vatninu, þokunni og loftinu í Oddskarðsgöngum.

Sérstakt hrós fær góðvinur minn Þorvaldur Einarsson, kenndur við snúru, sem barði bumburnar af þvílíkri list að ég hefði ekki trúað að því að þetta væri hann, ef ég hefði ekki séð það með eigin augum. Hann tekur framförum á undraverðum hraða. Annað hvort er hann duglegur að æfa sig eða þá að hann hefur vaðið í vítamínin af krafti. Nema hvort tveggja sé.

Ég get ekki ákveðið hvernig á að stafsetja orðið shjów.

Um þessar mundir er ég einstæður faðir. Betri helmingurinn er staddur í Vaasa í Finnlandi þar sem hún nemur sárameðferðarfræði af þarlendum sérfræðingum í tvær vikur. Við Einar Smári erum því bara tveir heima og borðum séríós í öll mál. Honey nut á sunnudögum.

Svo var ég að fá smá styrk frá Þróunarsjóði Leikskólaráðs. Gaman af því, fyrir utan það að nú þarf ég að vinna helvítis verkefnið sem ég sótti um styrk fyrir. Ég vildi nefnilega bara fá peninginn og svo vildi ég að verkefnið væri búið. Leiðin frá því að fá styrkinn og að því að verkefni væri búið, var mér ekki mjög hugleikinn. Ég má auðvitað ekkert vera að því að vinna það. Best að væla ekki yfir því. Mér var nær að sækja um.

Crystal Palace er taplaust í 15 síðustu leikjum og hefur klifið frá næst neðsta sæti í það 5. í töflunni. Það er rosa gaman að halda með þeim núna. Sérstaklega ánægjulegt að 16, 17 og 18 ára guttar eru að koma sterkir inn. Palace á fullt í fangi að hafna tilboðum stórliða í þá og ef það tekst að halda þeim í 3-4 ár er framtíðin björt á Selhurst. Gleði, gleði. Þegar núverndi eigandi keypti liði ákvað hann að leggja mikið í unglinga- og uppeldisstarf og það er einfaldlega að skila sér. Hann er hrokagikkur og dónapungur, en þetta gerði hann vel.

Friday, January 11, 2008

Ársins

Nú er mikið verið að tala um menn ársins, plötur ársins, bækur ársins, atburði ársins og þannig. Menn eru að gera upp síðasta ár, setja það í eitthvað samhengi og festa í sessi það sem stóð uppúr.

Þetta er mín tilraun til þess.

2007 var fínt. Framan af ári var ég í fæðingarorlofi. Svo fór ég að vinna. Um sumarið fór ég í aðgerð og var heima í smá stund út af því. Fékk svo sýkingu í kjölfarið og ver enn lengur heima út af því. Um haustið fór ég til USA og Kanada og komst að því að Niagara Falls eru hálfgert prump. Þetta var fyrsta heila árið mitt sem pabbi og gengur það vonum framar að sinna því hlutverki. Sennilega er það Einari Smára meira að þakka en mér.

Einar Smári er klárlega maður ársins. Hann lærði að labba á árinu, sagði fyrstu orðin sín, hóf að ganga menntaveginn í leikskólanum og náði að vaka til 10 á aðfangadagskvöld. Geri aðrir betur.

Jólabarn ársins er er læknirinn sem skar stærðarinnar krabbameinssýkt stykki úr bakinu á mér. Hann náði sér í væna flís af feitum sauð.

Kærasta ársins er Guðný. Hún er líka hjúkkunemi ársins þar sem hún setti á laggirnar stórsniðuga heimasíðu um sárameðferð (www.saramedferd.org), kláraði lokaverkefnið sitt og var hæst í sínum bekk í 2 prófum af 3. Hún er líka mamma ársins, ásamt mömmu minni.

Ég er trommuleikari ársins því ég trommaði Neistaflugslagið og sigurlag Jólalagakeppni Rásar 2.

Daníel Geir er lagahöfundur ársins.

Tónleikar ársins voru með Rufuz í Egilsbúð, 29. des.

Hálstöflur ársinn eru Fisherman´s friend sem eru þrælgóðar og lækna flesta kvilla, ekki bara hálsbólgu.

Tölvuleikur ársins er PES 2008.

Engar góðar plötur, bækur eða kvikmyndir komu út á árinu að því að ég best veit.

Og þannig er nú barasta það. Árið 7 búið. Nú er komið 8. Gleðilegt ár.

Wednesday, January 09, 2008

Vítamín

Þegar ég var lítill ætlaði ég að verða rosa sterkur og massaður. Robbi vinur minn deildi sama metnaði. Við tókum okkur því til og fórum að stunda lyftingar af krafti. Mest lyftum við dótakössunum okkar sem voru, hæfilega fullir af dóti, nokkuð þungir fyrir litla pjakka.

Eitthvað lét þó árangurinn á sér standa og þrátt fyrir að hafa eitt bróðurpartinum af klukkutíma í átökin og vöðvahnykkl vorum við litlu massaðri en þegar við vöknuðum þann daginn. Við freistuðumst því, eins og margur íþróttagarpurinn, til að taka styttri leiðina. Við fórum í lyfin. Performance enhancing drugs.

Öllum vítamínum sem við fundum í skápum og skúffum heimila fjölskyldna okkar var safnað saman ásamt brúsum af Sanasól og Frískamíni. Svo var etið og drukkið. Fjölvítamín, steinefni, lýsispillur, Ofurbangsabarnavítamínið, járntöflur og ég veit ekki hvað og hvað. Öll pillubox tæmd. Við átum allt og skoluðum því niður með Sanasól og Frískamíni.

Svo var aftur lagst í lyftingarnar og tekið hressilega á því. Okkur fannst við orðnir jafn sterkir og Jón Páll. Svo fórum við og sögðum foreldrum okkar frá því að hvað við vorum orðnir sterkir og hvað við höfðum verið sniðugir að taka fullt af pillum.

Foreldrar okkar fengu þá það sem fróðir menn kalla áfall. Vildu þau meina að ofurskammtar af vítamínum væru ekki góðir fyrir litla kroppa. Umsvifalaust var haft samband við heilbrigðisyfirvöld sem, að því er virtist, hneigðust til svipaðra skoðana og foreldrar okkar.

Við drukkum meira af vatni og mjólk þennan daginn en nokkurn annan dag fyrr eða síðar. Læknirinn fyrirskipaði það.

Ég er ekki frá því að við Robbi séum svona gáfaðir og massaðir í dag af því að við tókum öll þessi vítamín. Held nú það.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?