<$BlogRSDURL$>
[ Gestabók ]
bók fyrir gesti

Monday, June 18, 2007

Hóhó

Mig dreymdi í gær eða fyrradag að ég væri að taka viðtöl við nokkrar persónur úr Íslendingasögunum. Ég var nefnilega að gera einhverja rannsókn tengda þeim og var meðal annars að mæla hversu langa vegalengd hver hetja hafði hlaupið í sögunum. Ég man sérstaklega eftir viðtalinu við Gretti Ásmundarson sem vildi að sund yrði innifalið í heildarvegalengdinni.

Fríkað stöff.

Eftir vinnu á föstudaginn sat ég einn heima, þar sem Guðný var á vakt að bjarga mannslífum og Einar Smári var farinn að lúlla sér, með þeim afleiðingum að ég bjó mér til Mæspeis síðu á netinu. Ekki veit ég nú til hvers ég gerði það. En allavega.

Það er gaman að fá hugmynd, eða stela hugmynd frá öðrum, fylgja henni eftir, bera hana undir aðra og sjá hana verða að snjóbolta á leið niður fjallshlíð. En þegar maður pælir í því rúlla svona boltar ekkert af sjálfu sér. Auðvitað er maður að ýta þeim. Stundum kemur manni bara á óvart hvað þeir rúlla og stækka hratt og auðveldlega.

Annars fór ég klippingu áðan.

Wednesday, June 13, 2007

Morgungleði og Erlendis

Ef einhver þjáist af hinum illvíga sjúkdómi morgunfýlu þá kann ég gott ráð. Sjálfur átti ég það til að vera nett morgunfúll. En ei meir, ei meir. Lausnin var einföld. Ég eignaðist afkvæmi.

Nú er það vissulega svo að morgnarnir eru að mörgu leyti erfiðari en áður. Það fylgir því meira stress og hasar að koma þremur manneskjum á fætur og út úr húsi en tveimur.

En síðustu þrjá morgna hef ég þurft að vekja afkvæmið til að koma honum á réttum tíma í leikskólann og mér á réttum tíma í vinnuna. Það er nýtt, vanalega var það hann sem vakti okkur og oft með 3-4 tíma fyrirvara til að tryggja að allir væru nú hressir áður en farið væri út úr húsi.

Það er svakalega skemmtilegt að vekja afkvæmið. Hann bókstaflega vaknar hlægjandi. Svo þegar hann er rétt búinn að jafna sig á fyrsta hláturskasti dagsins fer mamma hans á fætur. Það gleður hann ómælt og meiri hlátur tekur við. Þegar Einar Smári hlær þá hlægja allir með. Morgunfýla heyrir því sögunni til.

Svo finnst manni allir eitthvað svo alvarlegir þegar maður kemur í vinnuna.

Mamma og pabbi komu aðeins við hjá okkur á leið sinni til Erlendis. Þau stoppuðu í einn dag. Á þessum eina degi fékk Einar Smári ís með jarðaberjum, súkkulaðisnúð, kleinur og snakk. Hann er ekki orðinn eins árs og við foreldrar hans höfum reynt að takmarka aðgang hans að sætindum og óhollustu. Þar fór það.

Mamma kenndi honum líka skemmtilegan leik sem felur í sér að taka gleraugun af fólki og hlægja svo að þeim. Við Guðný göngum dagsdaglega bæði með gleraugu. Takk mamma.

Þegar þau koma til baka frá Erlendis vilja þau fá að hafa hann hjá sér yfir eins og eina helgi áður en þau fara austur á land aftur. Sjálfsagt til að kenna honum að nota eiturlyf og stela bílum.

En þetta er allt réttlætanlegt því þau hitta hann svo sjaldan og þau eru bara að gleðja hann. Vona bara að barnaverndaryfirvöld taki þeim rökum vel.

Ef mamma og pabbi lesa þetta og eru of gömul til að fatta kaldhæðnina þá er ég bara að grínast, gamla fólk. Við hlökkum mikið til að setja hann í helgarpössun til ykkar.

Mig langar til Erlendis.

Wednesday, June 06, 2007

Never underestimate the power of stupid people in large groups

Alltaf gott að byrja á spakmælum.

Það hefur verið gerð röð af bíómyndum um illan búálf sem heitir held ég bara Leprechaun. Ég var að komast að því að sú nýjasta gerist í geimnum. Leprechaun: In space. Ég legg til að við Búálfar höldum video kvöld bráðlega. Hvað er betra en morðóður búaálfur? Jú, morðóður búálfur í geimnum auðvitað.

Svo eru Bush og Vladimir vinur hans eitthvað að kítast. Gaman af því...Þegar ég var lítill var kalt stríð í gangi sem síðan batnaði. Nú virðist það ætla að koma aftur. Svo ég vitni í fyrrverandi framkvæmdastjóri Crystal Palace og haldi áfram með spakmælin: If history is going to repeat itself, we should expect the same thing again. Snilld.

Minnir mig á annað spakmæli frá snillingunum í Spinal Tap:

I know for I told me so, and I am sure that you´ll all quite agree.

The more it stays the same, the less it changes!

Einnig snilld.

Nú man ég ekkert hvað ég ætlaði að blogga um, svei mér þá. Jæja. Það kemur þá síðar bara. Kannski.


This page is powered by Blogger. Isn't yours?