<$BlogRSDURL$>
[ Gestabók ]
bók fyrir gesti

Sunday, December 24, 2006

Happy seasonal festival of your adopted social context!

Í útlöndum er sumstaðar erfitt að segja gleðileg jól vegna áhrifa pólitískrar rétthugsunar. Sem betur fer er það ekkert mál á Íslandi.

Gleðileg jól allir saman!

Við fjölskyldan erum að sjálfsögðu á Neskaupstað þar sem Einar Smári fagnar sínum fyrstu jólum. Hann er búinn að stara stóreygður á jólatréð í allan morgunn, aldrei séð annað eins náttúrulega. Allir eru með kvef og hor en það stoppar mann ekki. Pabbi vann möndlugrautinn en svindlaði nánast örugglega.

Fjör. Vona að allir hafi það sem best og nái að bæta á sig virðulegum fjölda kílógramma. Ég set markið ða tveggja stafa tölu.

Gleðileg jól aftur.

Tuesday, December 19, 2006

Gagnrýnin hugsun

Um eitt leytið í gær byrjaði ég að lesa Draumalandið eftir Andra Snæ. Kláraði hana um 9 leytið. Bókin er auðlesin og ágætlega skrifuð. Upp á síðkastið hefur maður heldur ekki þótt viðræðuhæfur um nátturuverndar- eða virkjana- eða álveramál vegna þess að maður hefur ekki lesið þessa bók.

Fyrir tilviljun sá ég í fréttum þegar ég var um það bil að klára bókina að hún hafði fengið bókmenntaverðlaun bóksala sem besta fræðibókin. Ég skal segja ykkur þetta: Draumalandið er álíka mikil fræðibók og Lína langsokkur, Dúa bíll og Ormar einfætti bjargar prinsessunni fögru.

Þetta segir mér að bóksalar upp til hópa hafa ekki raungreinamenntun né langt háskólanám að baki þar sem áhersla er lögð á gagnrýna hugsun. Það hafa Vigdís Finnbogadóttir, Bubbi Morthens og Dr. Gunni greinilega ekki heldur.

Ég get ekki ímyndað mér annað en að þeir sem telja Draumalandið merkilega bók eða jafnvel meistaraverk þjáist illilega af confirmation bias rökvillunni. Það er sú villa að leita uppi skoðanir sem passa við okkar eigin og rök sem styðja okkar eigin skoðanir, gagnrýnislaust. Þetta er villa því það skynsamlega í stöðunni er að leita að rökum gegn okkar eigin skoðunum og skoða þær gagnrýnið.

Hvað er að bókinni? Vafasamar fullyrðingar, ósamræmi og þversagnir, strámannaröksemdarfærslur, ýmsar aðrar rökfærsluvillur, fáranlegir tölfræðileikir, yfirlæti og hroki gagnvart landsbyggðarfólki almennt og Austfirðingum sérstaklega svo fátt eitt sé nefnt.

Það þarf einhver að setjast niður og fact-checka þessa bók frá a-ö. Nú er ég ekki að tala um þar sem Andri vitnar í heimildir heldur fjölda annara fullyrðinga sem hann heldur fram sem eru ekki heilagur sannleikur, þó svo að hann gangi út frá þeim sem slíkum. Til dæmis fullyrðir hann ýmislegt um sjálfsmynd Íslendinga og bæjarfélaga, hvað hefur hann fyrir sér í því? Einnig segir hann að það þurfi 12.000 manns til að halda grunnframleiðslu Íslands gangandi. Það má vel vera að svo sé en hann vitnar ekki í heimild né útskýrir hvernig hann kemst að þessari tölu. Þar með eru forsendur bókarinnar sem fræðirits farnar út um gluggann. Í fræðiritum verða menn að hafa eitthvað fyrir sér og gera grein fyrir því. Og þetta eru bara 2 dæmi af skrilljón.

Andri lendir talsvert í þversögn við sjálfan sig, varar við forarpittum sem hann dettur svo í sjálfur og nokkuð ber á því að hann fylgi ekki þeim leikreglum sem hann segist sjálfur leggja áherslu á. Snemma í bókinni varar hann við einfeldningslegum tvískiptingum eins og menn séu annað hvort með eða á móti og ekkert grátt svæði sé til. Til dæmis gagnrýnir hann réttilega það þegar menn segja að þeir sem séu á móti virkjunum séu á móti rafmagni eða velmegun eða framþróun, það er óréttmæt ofureinföldun. Undir lok bókarinnar er hann svo sjálfur dottinn á bólakaf í þessa gryfju, hann segir til dæmis að heimildarmynd þar sem lýst sé skoðunum gagnstæðum hans eigin sé að ala á fáfræði. Upplýsingar sem eru í takt við hans skoðanir lýsir hann sem stórmerkilegum og í raun sé glæpur að halda þeim frá þjóðinni. Með öðrum orðum mínar skoðanir= merkilegar og mikilvægar. Andstæðar skoðanir = fáfræði. Hann sem varar sjálfur við þessu!! Mínar skoðanir = fallegar. Andstæðar = ljótar. Óréttmætar ofureinfaldanir.

Andri notast mikið við svokallað strámannarökfærslu. Sú röksemdarfærsla er mjög algeng í áróðursritum sem þessum og gengur út að gera andstæðingum sínum upp skoðanir eða rök sem höfundur á auðvelt með að skjóta í kaf og fagna svo sigri. Vandræðin eru hins vegar þau að fáir myndu í raun skrifa undir rökin eða skoðanirnar sem hann er að skjóta í kaf, þar sem þeim er oftast stillt upp af höfundinum sjálfum þannig að þau liggi vel við höggi. Röksigurinn er því merkingarlaus.
Dæmi um strámenn í bókinni er þegar Andri vitnar í stjórnmálamenn og (af einskæru yfirlæti og hroka) túlkar svo orð þeirra á mannamál fyrir okkur vitleysingana. Þessar túlkanir ganga svo mjög langt og hann reynir að draga orð stjórnmálamannana alveg yfir í það að vera fáránleg og þar af leiðandi auðvelt skotmark. Annar strámaður er þessi sölubæklingur frá stjórnvöldum sem hann eyðir svo miklu púðri í. Ég er nokkuð viss um að meirihluti náttúruauðlindanýtingarsinna séu ekki sammála í einu og öllu þeirri stefnu sem LOWEST ENERGY PRICES bæklingurinn er að marka. Þar með er stór hluti bókarinnar farinn út í veður og vind. Þetta gerir Andri nokkrum sinnum, tekur öfgarök eða setur skoðanir andstæðinganna upp með þeim hætti sem honum hentar, frekar en þeim hætti sem í raun og veru á við. Týpísk brella í svona bókum. Hversu viðeigandi eru t.d. skoðanir Jakobs Björnssonar eða dæmið um söluaukningu á áli vegna Britney Spears pepsi auglýsingar. Strámenn.

Aðrar villur í röksemdarfærslum eru frekar dapurlegar tilraunir Andra að tengja sinn málstað við sér heldri og merkilegri menn, eins og Halldór Laxness og Ghandi sem hann vitnar í. Ég skal lofa ykkur því að hvorki Dóri Lax né Ghandi hafa skoðun á Kárahnjúkavirkun. Þeir eru dánir. Allt tal um þá er irrelevant.

Rök andstæðinganna reynir hann síðan að tengja við hið illa, herstöðvar, vopnaframleiðslu og versta fyrirtæki í heimi. Þetta versta fyrirtæki í heimi, Rio Tinto eða hvað sem þeir heita, sem hann vitnar ítrekað til hefur engin umsvif á Íslandi og kemur umræðunni bara nákvæmlega ekki neitt við. Hann er einfaldlega að reyna að tengja það inn í umræðuna og setja það í lið með hinum vondu. Ótrúlega barnalegt í rauninni. Og að tengja álframleiðslu við Tomahawk flugskeyti sem vondi kallinn býr til eru engin rök í rauninni. Alveg eins er hægt að segja að ál sé mikið nota í sjúkra- og brunabíla og á sjúkrahúsum og í ýmis lækningatól og tæki. Þannig bjargar ál beinlínis þúsundum mannslífa daglega. Léleg rök? Hann byrjaði.

Andri gagnrýnir líka vefsíður og aðrar upplýsingaveitur fyrir að segja ekki alla söguna. Heldur einhver í alvöru að Andri Snær geri það?? Hann er nákvæmlega jafn sekur og allir aðrir um að sleppa því að fjalla um hluti sem málstað hans hentar ekki að fjallað sé um. Því ætti hann ekki að gagnrýna aðra fyrir það, hann er jafnsekur.

Andri reynir fyrir sér í tölfræðileikfimi og fellur. Á einum stað reynir hann að sýna fram á hvað 0,5% og 2% séu í raun stórar og miklar tölur. Annarsstaðar reynir hann að draga úr stærð og gildi 0,69%. Aftur ósamræmi og ljóst að aðrar reglur sem gilda þegar það henntar honum. Uppáhaldið mitt er þegar hann námundar terawattstundir að hundraði og setur upp graf þar sem Ísland er með 0 terawattstundir (námundað að næsta heila hundraði) og ber það saman við heimsálfur. Já, HEIMSÁLFUR! Þetta er náttúrulega bara útí hött. Samanburðir við sambærilega stór landssvæði eða álíka fjölmennir þjóðir væri áhugaverður (þó ekki ef námunda á að næsta hundraði) en annað er bara rugl.

Síðustu tveir kaflarnir ganga út á hvað við Austfirðingar erum miklir hálfvitar. Hvernig við eyðileggjum sjálfstæð og sjálfssprottin fyrirtæki til að rýma fyrir Alcoa. Og hvernig við biðum eftir álveri í mörg ár án þess að reyna og án þess að hugsa. Hvað við erum nú miklir sauðir að vera ekki jafn sniðug og hann og geta verið brjálaðir frumkvöðlar með fullt af æðislegum hugmyndum á öllum sviðum. Á einum stað segir Andir Snær: Hér brosir landsbyggðin og fagnar eins og Teletubbies í hvert sinn sem einhver ætlar að kveikja á viftunni.

Dæma svona ummæli sig ekki sjálf?

Draumalandið er ekki fræðibók. Hún er áróðursrit og ágæt sem slíkt og ef manni vantar rök fyrir málstað sínum og er sammála höfundinum er örugglega hægt að finnast hún æðisleg. Mér fannst hún engan vegin standast þær væntingar sem byggðar höfðu verið upp í kringum hana, alls ekkert meistaraverk. Mér fannst hún ekki einu sinni góð. Eiginlega svolitíð léleg í ljósi þess að höfundur var að reyna að skrifa fræðirit.

Friday, December 08, 2006

Heima er best

Betri helmingurinn er nú í prófum og les myrkrana á milli sem þýðir að við feðgar höngum tveir heima á daginn. Við unum okkur afar vel við það. Afar, afar vel.

Það er gott að vera heima. Ég er búinn að vera sæmilega duglegur að þrífa, vaska upp, þvo þvott og elda, sem gleður konuna mína umtalsvert. Ég er líka mjög duglegur að horfa á heimildimyndir á Discovery og National geographic, til dæmis um líf og störf slökkviliðsmanna í Boston, gullnámur í Afríku og þætti um það hvernig byggja á mótorhjól og sérsmíðaða bíla. Það eru ótrúlega margir þannig þætti í gangi. Nú er svo komið að ég treysti mér alveg til að smíða mótorhjól úr gamalli sjónvarpsfjarstýringu, Ikea sófa og hálfpotti af nýmjólk. Stundum horfi ég líka á Eurosport. Ég ætlaði að vera duglegur að lesa, þar sem við fræðimenn erum alltaf með bunka af stöffi sem okkur finnst við verða að lesa. Hingað til hefur þó lítið gerst í því. Mest hef ég lesið í ævisögu Jimi Hendrix.

Ég fagna því að stöð 2 sýnir núna svokallað krakkaveður, þar sem veðrið er sett fram í máli og myndum sem höfðar til barna. Þetta finnst mér í raun gera hefðbundnar veðurfréttir úreltar. Mér er skítsama um hundraða millibara og hektópascal hæðir og lægðir og áttir og blablabla. Segiði mér bara hvort það verður rok eða logn, rigning eða sól og hvort ég þurfi að vera í úlpu eða bol. Það er miklu góðara.

Á morgun er útlit fyrir að ég skelli mér í jólaglögg, glögg, glögg, glögg. Hér er uppskrift sem ég kann að fínu jólalöggi:

1 vodkaflaska
1 rúsína
Skreytið með greni eftir smekk.


This page is powered by Blogger. Isn't yours?