<$BlogRSDURL$>
[ Gestabók ]
bók fyrir gesti

Tuesday, October 31, 2006

Yesterday was dramatic, today is OK.

Líður betur í dag en í gær. Ég var niðurdreginn þegar ég bloggaði í gær. En lengi getur vont versnað og dagurinn versnaða enn frekar eftir hádegið þegar ég frétti að Lóló, amma Guðnýjar, hefði látist. Hennar verður sárt saknað. Ég vona að ég verði jafn lífsglaður þegar ég verð 84 ára eins og hún var.

Einar Smári vaknaði klukkan 6 í morgun. Hann er svo klár að í stað þess að væla til að tilkynna foreldrum sínum að hann vilji athygli, tekur hann upp á því að hlæja, hjala og brosa til manns. Það er ómótstæðilegt. Þá fer maður á fætur til að leika við litla manninn. Honum er alveg sama þó ég þurfi að vinna eitthvað fram eftir kvöldi í dag. Maður kemst upp með tilitsleysi þegar maður er 3 mánaða gamall.

Einhvern tímann áður hef ég lýst yfir andsöðu minni við kukl og þvælu á þessu bloggi. Grein í Mogganum þar sem sérfræðingar (innan stórra gæsalappa) voru spurðir um ráð við kvefi vakti athygli mína. Þessi grein er einnig til umfjöllunar á vantru.is. Kvef er náttúrulega sjúkdómur sem aðeins læknast með tíð og tíma. Þannig sjúkdómar eru uppáhald þvælu- grasa- hómó- reiki- kuklmeistara. Benedikta Jónsdóttir í heilsuverlsuninni Maðu lifandi gaf þessi ráð:

Af því að öll vandamál byrja í þörmunum er gott að taka Asidófílus-hylki reglulega. ... Svo er gott að fá sér teskeið af hrárri kókosfitu og matskeið af hörfræjaolíu sem er rík af Ómega 3, 6, og 9 fitusýrum. Með þessu ná kvefbakteríurnar ekki fótfestu í líkamanum og renna út.
Benedikta segir svo að fjölmargar rannsóknir bendi til þess að hvítlaukur, C-vítamín og íslenska hvannarótin virki vel á kvefið, séu bakteríudrepandi. Loks minnist hún á hómópatalyf sem hún segir djúpvirk.


Þetta er svo stórkostlega heimskulegt að það gladdi mitt litla hjarta. Ég nenni ekki einu sinni að tala um þá fullyrðingu að öll vandamál byrji í þörmunum. Allir sem hafa fallið í Líffæra og lífeðlisfræði 103 vita hvurslags dásemdar þvæla það er. Best finnst mér hvað hún kann mörg ráð og er vel að sér um bakteríudrepandi og hreinsandi efni sem vinna svona vel á kvefinu.

Snilldin er auðvitað sú að bakteríur valda ekki kvefi. Það gera vírusar. Það er því óþarfi að hreinsa úr líkamanum kvefbakteríurnar, þær eru nefnilega ekki til, nema hugsanlega í hausnum á henni. Ætli einhver bendi konunni á það við tækifæri?

Ég reyndar efast ekkert um að hún kann líka fjölda ráða við vírussýkingum ýmisskonar. Það kann ég líka. Ég hef nefnilega ákveðið að selja dúpvirkar hómópatískar lausnir á lægra verði en þú finnur nokkurs staðar annarsstaðar. Einnig býð ég uppá árunudd, árauheilun, áruráðgjöf og áruteikningar á besta verði í bænum. Einnig fann ég útí fjöru nokkra orkusteina sem eru beintengdir frumkrafti jarðar og geta læknað ilsig, flösu, málhelti og greindarskort. Svo er ég um þessar mundir að blanda blómadropa sem hafa endurbætandi áhrifa á DNA, tauga- meltinga- og stoðkerfið. Þeir verða þó fjandi dýrir þar sem ég þarf að hugleiða yfir þeim svo lengi svo full virkni náist.
Einnig hef ég til sölu lyfleysu sem er eitt magnaðasta virka efni veraldar.

Rannsóknir hafa ítrekað sýnt fram á að ekkert virkar jafn vel og lyfleysa.

Monday, October 30, 2006

Í rusli

Oftast blogga ég þegar ég er glaður eða reiður. Núna er ég dapur en á sama tíma þakklátur.

Lag dagsins er Thief með Our Lady Peace. Til heiðurs öllum litlu hetjunum sem vinna marga bardaga en tapa á endanum stríðinu.

Annars er allt gott að frétta. Nema að ég er mað hausverk.

Friday, October 27, 2006

Vinsamlegast

Ég verð vinsamlegast að biðja fólk að hætta að þeyta bílhorn sín að mér í umferðinni. Það gerist reyndar ekki oft en í gær gerðist það tvisvar. Þetta fer bara alveg með mig. Maður er kannski í þungum þönkum/í bullandi fíling með lagi í útvarpinu/naglalakkandi á sér tánegglurnar og allt í einu BÍÍÍÍBBBB. Hvað er það?

Í fyrsta lagi er ég mjög hvumpinn og bregður alltaf. Mér bregður við bókstaflega allt. Mér bregður við að vakna. Einhver fer að tala við mig upp úr þurru og þarf svo að bíða í 37 sekúndur meðan ég öskra stanslaust frávita af skelfingu. Síminn hringir og ég prumpa af taugaveiklun. Allt kemur mér á óvart. Hávær bílflauta gæti því auðveldlega drepið mig.

Í öðru lagi þá eru manngildi á borð við yfirvegun, rósemi og ermm... yfirvegun, lítils metin í reykvískir umferðarmenningu. Ég er sjaldan að flýta mér. Ég er líka sjaldan með hugann við það sem ég er að gera. Þetta leiðir það af sér að ég gæti tekið mér örfáar sekúndur til umhugsunar eftir að græna ljósið kemur. Bara örfáar, rétt til að jafna mig og rifja upp hvert ég er nú aftur að fara. Svo keyri ég oftast frekar hægt. Það er öruggara.

Djúp fljót renna hægt.

Í þriðja lagi þá veit ég ekki hvað ég á að gera. Hver eru hin æskilegu viðbrögð? Oft verð ég hálf miður mín og langar mest til að labba út úr bílnum, banka á rúðuna hjá þeim sem flautaði og segja: Sorry, elsku kallinn ég var bara að pæla í því hvor mænan á skjaldbökum bogni eða dragist saman þegar þær draga hausinn inn í skelina. Hvað heldur þú? Einmitt. Ætlaði alls ekki að tefja þig. Ég skal bruna strax af stað núna.

Þá yrði ég sennilega laminn. Óbótanna til.

Fokk jú puttinn gæti líka verið æskilegt viðbragð við þessar aðstæður. En þá læðist að mér það sem ég kalla efasemd sálfræðingsins: Hvað ef þetta er skjólstæðingur minn? Þessi hugsun er okkur hausurunum þungbær og ætti að teljast til skrilljón launaflokka vegna andlegs álags.

Ég legg til að bílflautur verði fjarlægðar úr öllum bílum.

Þess má geta í óspurðum fréttum að ég er núna í 50% starfi sem (dreg djúpt andann....) Verkefnisstjóri þekkingarstöðvar í málefnum fatlaðra barna. Flottur titill ekki satt? Ég hlakka mikið til að fá að vita hvað hann þýðir. Til að byrja með þýðir hann aðeins hærri laun, sem er gott því mér líkar vel við peninga. En jafnframt spyr maður sig hvort ég þurfi þá að vera duglegri í vinnunni sem er augljóslega ekki svo gott.

Svo er ég í 50% starfi sem óbreyttur, sauðsvartur, almúga sálfræðingur. 50 plús 50 ku vera 100.

Nú styttist í fæðingarorlof.

Tuesday, October 17, 2006

Staðreyndir

Ég, Guðný og Einar Smári eyddum fimmtu-, föstu-, laugar- og sunnudegi á Nesi við Norðfjörð. Þar var farið ógætilega með mat og annan munaðarvarning. Mest bara flatmagað og prumpað, þó.

Talsvert af fólki er spennt fyrir Airwaves um þessar mundir. Ég ætla ekki. Football Manager 2007 kemur út á föstudaginn og mín helgi mun snúast um að þykjast stjórna boltasparksliði í útlöndum í tölvunni minni. Ég mun rökræða við leikmenn sem ekki eru til og láta gríðarlegar skapsveiflur, vegna úrslita leikja sem ekki skipta neinu máli, bitna á vinum og vandamönnum. Mér finnst það svo ógeðslega gaman.

Reyndar koma mamma og pabbi í heimsókn en ég vona að þau trufli mig ekki mikið.

Sumir halda að óvéfengjanlegar staðreyndir séu ekki til. Eru þeir þá þeirrar skoðunar að það sé óvéfengjanlega staðreynd að óvéfangjanlegar staðreyndir séu ekki til? Það hlýtur að valda streitu að vera alltaf í bullandi þversögn við sjálfan sig.

Streita er ekki holl. Ég veit allt um það en. Óvéfengjanleg staðreynd.

Hér líkur röksemdarfærslunni.

Wednesday, October 04, 2006

Jesus juice

Sá í Fréttablaðinu að Micheal Jackson er að hugsa um að opna búálfaskemmtigarð þar sem hann er heillaður af írskum þjóðsögum. Ég reikna með því að hinir íslensku Búálfar verði þá þar, almenningi til sýnis, í þartilgerðum búrum. Michael veit sem er að það er auðvelt að fá íslenska Búálfa til að gera nánast hvað sem er ef þeir fá bara nóg Jesus juice.

Ég er óstjórnlega hræddur við karlmenn sem afgreiða í tískuvöruverslunum. Þið kannist við týpuna, trendí ljósabekkjagæjar með þrjár geltúbur í hárinu og í nýjustu tískuvöruvarningum. Rosa metró, rosa hressir, vita allt um hönnun og ljósmyndun. Ég er hræddur við þá. Veit ekki alveg hvernig á því stendur.

Ég gæti hafa týnt trommusettinu mínu. Kemur í ljós.

Síðustu daga hefur verið spes að vera austfirðingur í höfuðborginni. Ég er sem betur fer í ágætis þjálfun í að forðast umræðuefni sem eru mér ekki að skapi og hef því lítið sem ekkert haft mig frammi um þetta vatn upp á fjöllum sem menn ætla að búa til rafmagn með. Hef ekki einu sinni haft á orði að Ómar Ragnarsson sé farinn að sína ýmis merki sem allir sem þekkja til starfsemi miðtaugakerfisins vita að benda til fyrstu stiga heilabilunarsjúkdóms. Hvað þá tjáð mig um hræsni ýmissa listamanna eða stórundarlega umfjöllun fjölmiðla um þetta allt saman. Fæst orð, minnst ábyrgð.

Þó hefðu margir hér í höfuðborginni gott af því að fá að vita að það eru tvær hliðar á þessu máli. Já, gott fólk, það eru til aðrar skoðanir en ykkar eigin. Og þeir sem eru ósammála mér hafa, eðli málsins samkæmt, rangt fyrir sér.

These are my principals. If you don´t like them, I have others.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?